„Förum í öfuga átt við hin Norðurlöndin“
„Ísland hefur rýmkað mjög skilgreininguna á því hverjir eigi rétt á hæli hér á sama tíma og önnur Norðurlönd hafa farið í öfuga átt. Menn virðast einfaldlega ekki átta sig á því hvernig þetta gengur fyrir sig. Það vita stjórnvöld á öðrum Norðurlöndum og hefur verið fjallað mjög mikið um í umræðu þar, ekki hvað síst síðustu misseri og raunar alveg frá árinu 2015 þegar mikil fjölgun varð á umsóknum,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í þingræðu.
„Glæpagengi, oft og tíðum stórhættuleg glæpagengi, selja ferðir til Vesturlanda, auglýsa þær á samfélagsmiðlum, halda úti Facebook-síðum, dreifa dreifibréfum á götuhornum og fylgjast mjög vel með hvaða áfangastaðir eru vænlegastir og hvaða leiðir eru bestar á þá áfangastaði. Svo er jafnvel aleigan tekinn af fólki til að senda það oft og tíðum í lífshættulega ferð, selja því falskar vonir. Ísland eitt Norðurlanda virðist skorta skilning á því hvernig þetta gengur fyrir sig, heildarsamhengi þessara mála. Nú er staðan orðin sú að það berast sexfalt fleiri hælisumsóknir til Íslands en til Danmerkur og Noregs hlutfallslega, og meira að segja fleiri en til Svíþjóðar. Það gerðist ekki af sjálfu sér. Það gerðist annars vegar vegna þeirra skilaboða og reglubreytinga sem hin Norðurlöndin, ekki hvað síst Noregur og Danmörk, hafa verið að senda út og þetta gerðist líka vegna þeirra skilaboða sem hafa ítrekað borist frá Íslandi þar sem Ísland er í raun auglýst sem áfangastaður. Þegar staðan er orðin sú að við förum í öfuga átt við hin Norðurlöndin samtímis því að þau eru að herða sínar reglur er með því verið að setja stóran rauðan hring utan um Ísland sem vænlegan áfangastað fyrir þá sem skipuleggja þessar ferðir.“