Forysta Sjálfstæðisflokksins fær á baukinn í málgagninu í dag. Davíð þykir ekki mikið, til flokksráðsfundinn á laugardaginn, til koma, sem sjá má í leiðara Moggans í dag.
Davíð, fyrrverandi formaður skrifar til dæmis þetta:
„Fundarskipan var þannig að mest bar á ræðum eða pallborðsræðum þar sem ráðherrar og aðrir forystumenn flokksins fengu að láta leiðarljós sín skína en hinn almenni flokksráðsmaður átti kost á að skjóta að spurningu í lokin. Þær voru oftlega betri en framsögurnar en svörin upp og ofan.“
Það er ekkert annað. Hinir óbreyttu fundarmenn voru samkvæmt þessu forystunni fremri.
„Athygli vakti að tillaga, sem laut að bókun 35 í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, náði ekki fram að ganga. Flokksráðsfundurinn vildi þannig ekki snupra Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur varaformann flokksins, en hún ákvað sem utanríkisráðherra að snúa við blaðinu um afstöðu Íslands til gildis bókunar 35.
Þar leiddi flokksráðið hjá sér efnislega umræðu um málið, sem snertir fullveldi landsins með beinum hætti, en vandræðin við bókun 35 stafa ekki síst af því að varaformaður flokksins, utanríkisráðherrann, hefur ekki heldur rætt málið efnislega, rökstutt hvers vegna Ísland hafi umyrðalaust fallið frá afstöðu sinni til þriggja áratuga.“
Davíð og Mogginn halda áfram á sömu braut:
„Það er bagalegt, en verra fyrir það að þetta virðist vera orðin regla hjá utanríkisráðherranum, sem ákvað án minnsta rökstuðnings að falla frá hagsmunagæslu vegna losunarheimilda skipaflota þessa eyríkis og lokaði sendiráði Íslands í Rússlandi að því er virðist vegna frosins kjúklings. Það er ekki óhugsandi að málefnaleg rök megi finna fyrir þeim ákvörðunum en þau hafa ekki verið leidd fram. Stjórnmálin eru ætluð til þess að ráða ráðum þjóðarinnar um slík mál, ekki aðeins til þess að hlýða á það sem ráðuneytið vill helst kunngjöra.“