Forstjóralaun lækki um allt að 50 milljónir
Vill launalækkun forstjóra Haga, N1 og Eimskips. Málið rætt á aðalfundi Gildis í dag.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, leggur til á aðalfundi Gildis að laun forstjóra Haga, N1 og Eimskips verði lækkuð í fjórar miljónir á mánuði, hjá hverjum og einum þeirra.
Tillaga Arnar er svohljóðandi:
„Ársfundur Gildis lífeyrissjóðs 2018 samþykkir að á næstu stjórnarfundum Haga, N1 og Eimskips muni fulltrúi Gildis í stjórn fyrirtækjanna bera fram eftirfarandi tillögu: Stjórnir Haga, N1 og Eimskips samþykkja að ráðningasamningar við forstjóra fyrirtækjanna verði teknir til endurskoðunar þannig að samanlögð árslaun og hlunnindi fari ekki umfram 48 milljónir. Jafnframt verði ráðningasamningar annarra stjórnenda fyrirtækjanna teknir til endurskoðunar þar sem laun og hlunnindi þeirra verði innan hóflegra marka.“
Örn segir í rökstuðningi sínum: „Samkvæmt ársskýrslu Haga 28. febrúar 2017 voru árslaun og hlunnindi forstjóra 76,6 milljónir rekstrarárið 1. mars 2016 – 28. febrúar 2017, um 6,4 milljónir á mánuði, árslaun forstjóra N1 árið 2017, 70,5 milljónir, um 5,9 milljónir á mánuði og forstjóra Eimskips árið 2017, 102,6 milljónir um 8,5 milljónir á mánuði. Óumdeilt er að slík ofurlaun rúmast ekki innan siðlegra marka hjá eigendum Gildis lífeyrissjóðs.“
Samþykki aðalfundurinn tillögu Arnar Pálssonar og hún gangi eftir lækka forstjórarnir verulega í launum. Gylfi Sigfússon hjá Eimskip myndi þá lækka um meira en 50 milljónir á ári, Finnur Árnason í Högum myndi lækka um 30 milljónir og Eggert Kristófersson hjá N1 myndi lækka í launum um rúmar 2o milljónir ári.
Örn segir ennfremur: „Í hluthafastefnu Gildis-lífeyrissjóðs segir m.a um starfskjör og starfskjarastefnu: „Við ákvörðun launa forstjóra telur Gildi-lífeyrissjóður rétt að líta til innri þátta félags, launadreifingar innan þess og launa sem ætla má að forstjóra bjóðist á þeim markaði sem félagið starfar á.“ Eignarhlutur Gildis lífeyrissjóðs í Högum er 12,95%, 9,22% í N1 og 9,42% í Eimskip.