Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki spyr um ferðir forseta Íslands.
Hversu margar utanlandsferðir fóru árin 2016–2019:
a. forseti,
b. yfirstjórn,
c. almennir starfsmenn?
Á tímabilinu 1. janúar 2016 til 17. október 2019 fór forseti Íslands í 39 ferðir; þar af voru átta opinberar heimsóknir (Danmörk, Eistland, Færeyjar, Finnland, Grænland, Lettland, Noregur og Svíþjóð) og er reglan sú að upplýst er um allar vinnuferðir forseta á heimasíðu embættisins. Á sama tímabili fóru yfirstjórnendur embættis forseta Íslands í 43 ferðir, oftast sem fylgdarmenn forseta í embættisferðum hans en einnig m.a. í undanfaraferðir, þ.e. undirbúningsferðir vegna opinberra heimsókna forsetans. Á þessu tímabili fóru almennir starfsmenn embættisins í 15 ferðir, oftast sem fylgdarmenn forseta en stundum til að sækja námskeið eða til að undirbúa heimsóknir forseta.
Voru ferðirnar kolefnisjafnaðar?
Já. Í landi Bessastaða hefur kolefni verið bundið undanfarin ár. Fyllt hefur verið upp í skurði sem grafnir voru um miðja síðustu öld, mýrar endurheimtar og þannig unnið að nauðsynlegri kolefnisjöfnun, m.a. vegna ferða forseta. Einnig hafa ýmsar trjátegundir og plöntur verið gróðursettar í sama augnamiði, m.a. brekkuvíðir og alaskavíðir, ýmis barrtré og reynitré. Þá er lífrænum áburði dreift á mela til að auka líkur á að gróður festi þar rætur. Í öllum þessum aðgerðum er líffræðilegur fjölbreytileiki ætíð hafður að leiðarljósi.
Er til fjarfundabúnaður hjá embætti forseta Íslands?
Nei, ekki hefur verið talin þörf á að fjárfesta í sérstökum fjarfundabúnaði fyrir embættið. Í símakerfi þess er innbyggt hátalarakerfi sem kemur að notum þegar fleiri en einn ræðast við. Þar að auki nota forseti og starfslið gjaldfrjáls fjarfundaforrit („Skype“ og „Facetime“) eða símafundaþjónustu símafélaga þegar það á við.
Hversu margir fundir voru haldnir með fjarfundabúnaði árin 2016–2019 með aðilum í útlöndum?Símafundir eru ekki skráðir eftir því hvort talað var í síma eingöngu, hátalarakerfi eða stuðst við fjarfundaforrit í tölvum og ekki liggur fyrir sundurgreining á því hverjir viðmælenda voru í útlöndum og hverjir á Íslandi. Af þeim sökum er ekki unnt að svara þessum lið fyrirspurnarinnar.