Ófriðurinn innan borgarstjórnar er mikill. Vigdís Hauksdóttir er þar eflaust í sérstöðu. Sennilega mikilli sérstöðu. Á síðasta fundi borgarstjórnar virðist hafa soðið upp úr. Þá var meðal annars rætt um tillögu Kolbrúnar Baldursdóttur, Flokki fólksins, um frestun á að gera helstu götur miðborgarinnar að varanlegum göngugötum.
Í fundargerðinni kemur ekki fram hvað Vigdís sagði, en þar segir hins vegar: „Forseti vítir borgarfulltrúa Vigdísi Hauksdóttur vegna brigsla, sem hún ber forseta í ræðu sinni, með vísan til 2. mgr. 17. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.“ Dóra Björt Guðjónsdóttir Pírati er forseti borgarstjórnar.