Fréttir

Forseti bæjarstjórnar yfirgefur Bjarta framtíð

By Miðjan

February 15, 2018

Guðlaug Svala Steinunnar Kristjánsdóttri, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, er hætt í Bjartri framtíð. Hún segir:

„Í nóvember í fyrra sagði ég skilið við stjórn Bjartrar framtíðar í kjölfar alvarlegs trúnaðarbrests. Ég hef haldið ótrauð áfram starfi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar en óneitanlega verið hugsi um áframhaldandi starf undir merkjum BF að loknu þessu kjörtímabili. Niðurstaða mín er að hér skilja leiðir. Ég mun ekki gefa kost á mér áfram í forystu fyrir Bjarta framtíð í sveitastjórnarkosningunum í vor. Þetta er ekki auðveld ákvörðun, eftir fjögurra ára viðburða- og árangursríkt samstarf með góðu fólki sem ég hef fengið þann heiður að leiða. Saman erum við að skila af okkur góðri og vandaðri vinnu sem ég vil gjarnan fylgja eftir með áframhaldandi starfi fyrir bæinn minn. Ég klára að sjálfsögðu hér eftir sem hingað til þau verkefni sem ég hef með höndum í umboði bæjarbúa og þakka Bjartri framtíð fyrir lærdómsríka samfylgd.“

Guðlaug segist ekki hætt í stjórnmálum.