Drífa Snædal, forseti ASÍ, skrifar: Eftir að hafa fylgst með ótrúlegri aðför formanns Sjómannafélags Íslands að Heiðveigu Maríu Einarsdóttir og þeim skilyrðum sem félagsmenn þurfa að uppfylla til að geta gefið kost á sér í trúnaðarstöður get ég ekki á mér setið. Í fyrsta lagi skal nefna að Sjómannafélag Íslands er ekki í Alþýðusambandi Íslands heldur sjálfstætt félag.
SjómannaSAMBAND Íslands eru hins vegar regnhlífarsamtök sjómanna innan ASÍ. Ef félag innan ASÍ hegðaði sér með svipuðum hætti og Sjómannafélag Íslands gerir þá yrði gripið í taumana og almennir félagsmenn hefðu þá möguleika á að fara með málið áfram innan heildarsamtakanna. Þetta er ókosturinn við að vera ekki innan heildarsamtakanna, það eru engar félagslegar kæruleiðir til staðar.
Það er MJÖG alvarlegt mál að víkja fólki úr stéttarfélagi og svipta fólk réttindum sínum. Hvað með aðgengi að sjúkrasjóði, fræðslusjóði og orlofssjóði svo ekki sé talað um félagslegu starfi? Er verið að svipta hana áunnum réttindum og tryggingum?
Ég vil hvetja farmenn og fiskimenn til að ganga til liðs við sjómannafélög og stéttarfélög sem eru innan Alþýðusambandsins og njóta þar með félagslegrar verndar sem heildarsamtök geta veitt.