Steingrímur J. Sigfússon, er í hópi þeirra þingmanna sem undrast meðferð áfengismálsins á Alþingi.
„Það segir allt sem segja þarf í máli af þessu tagi sem búið er að senda fleiri en einni þingnefnd til umsagnar og beðið um álit, að rífa það svo út fyrirvaralaust með þessum hætti án þess að minnsta kosti gera þá hinum nefndunum aðvart um að nú liggi á að fá frá þeim álit. Ekkert af þessu var gert. Það er algerlega forkastanlegt,“ sagði Steingrímur.
Steingrímur hafði skýringar, þ.e. hvers vegna hann heldur að málinu hafi verið breytt og það tekið út úr allsherjar- og menntamálanefnd.
„Auðvitað eru þessari breytingar eingöngu til þess að reyna að berja stjórnarliðið saman, sem var auðvitað með málið í upplausn. Það er verið að reyna að safna sauðunum saman í einn dilk með þessum beitingum.“
Þá kallaði Bjarni Benediktsson fram í: „Þetta er ekki stjórnarmál.“
„Það er nú samt þannig, hæstvirtur forsætisráðherra. Enda er það ævinlega þannig þegar þetta mál ber á góma að þá gerist hæstvirtur forsætisráðherra órólegur og fer að grípa fram í og roðnar í framan. Þetta er þvílíkt hugsjónamál.“
-sme