Þorbjörn Guðmundsson, formaður kjaranefndar LEB. skrifaði:
Nú er árið 2022 að baki og 2023 hafið með nýjum tækifærum og áskorunum.
Nú er rétti tíminn til að líta um öxl, meta árangur liðins árs og reyna að spá í nýtt ár.
Samtök eldra fólks höfðu væntingar til stjórnvalda um að árið 2022 myndi verða upphaf að nýjum sigrum þar sem stigin yrðu skref að bættum kjörum. En hvað var þess valdandi að eldra fólk gat gert sér vonir um að nú væri stundin runnin upp?
Í fyrsta lagi var öllum stjórnmálaflokkum kynntar áherslur eldra fólks bæði fyrir Alþingis- og sveitarstjórnarkosningar. Undirtektir voru mjög góðar og ekki hægt að skilja það með öðrum hætti en að pólitísk samstaða væri þvert á flokka. Ríkisstjórnin endurnýjaði umboð sitt og samþykkti nýjan stjórnarsáttmála þar sem því er lýst yfir að endurskoða eigi skerðingar og jaðarskatta eldra fólks.
Í áramótaávarpi forsætisráðherra lagði ráðherrann sérstaka áherslu á að við gerð kjarasamninga bæri fyrst og fremst að horfa til þeirra sem eru með lökust kjörin. Hér hefði ráðherrann átt að horfa inn á við, því hópurinn sem er með lökustu kjörin er fólk sem verður að treysta fyrst og fremst á lífeyri frá TR. Þetta er líka sami stjórnmálamaðurinn sem sagði að fátækt fólk hefði ekki tíma til að bíða eftir réttlætinu.
Eldra fólk var ekki að biðja ríkisstjórnina um að fá eitthvað umfram aðra, heldur að kjarabætur yrðu sambærilegar við aðra launamenn. Verðbólga er 9,6% og allar nauðsynjavörur hækka, fasteignaskattar hækka, heilbrigðisvörur og þjónusta hækka, tryggingar hækka, bensínið hækkar, húsnæðiskostnaður rýkur upp og þessu verður eldra fólk að mæta með sínum lága lífeyri.
Miðað við hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru við eðlilegum óskum eldra fólks um sambærilegar leiðréttingar á sínum kjörum og annað launafólk er að fá, er yfirlýsing forsætisráðherrans um að leggja eigi áherslu á þá sem lakast standa ótrúverðug, raunveruleikinn er annar.
Þetta er hluti greinar sem Þorbjörn skrifaði á Kjarnann sáluga.