Davíð Oddsson tekur á sig krók til að koma höggi á Katrínu Jakobsdóttur. Verkfæri Davíðs er Staksteinar.
„Vinstrihreyfingin – grænt framboð á bágt þegar kemur að utanríkismálum. Það gleymist seint þegar flokkurinn, sem hafði talið kjósendum trú um að hann væri andvígur ESB, og reynir það enn, snerist skyndilega eftir kosningar fyrir rúmum áratug og sótti um aðild að sambandinu! Þetta var stórt skref gegn stefnu flokksins og kostaði fjölda félagsmanna. En forysta flokksins lét sér þetta ekki nægja. Nokkru síðar fékk hún tækifæri til að standa við þann hluta utanríkisstefnunnar að Ísland gangi úr Nató og sé andvígt hernaðaraðgerðum,“ skrifar ritstjórinn.
Og áfram er haldið: „Hún fékk kylliflöt á því prófi þegar Nató fór með hernaði gegn Líbíu, því að á þeim tíma sat VG í stjórn með Samfylkingu og gat innan Nató hafnað hernaðaraðgerðinni.
Þegar þetta er haft í huga þarf ekki að koma á óvart að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og forsætisráðherra, skuli í vikunni hafa ávarpað ráðstefnu um Varnarsamninginn við Bandaríkin og rifjað þar upp að VG styðji þjóðaröryggisstefnu Íslands þrátt fyrir stefnu flokksins.
Vissulega má segja að þetta sé praktísk afstaða pólitískt, því að með því að fylgja stefnunni myndi flokkurinn útiloka sig frá ríkisstjórnarþátttöku.
Þegar þetta er skoðað í samhengi við umsókn þvert á yfirlýsta afstöðu gagnvart aðild að ESB horfir málið öðru vísi við. Þá blasir einfaldlega við að flokkurinn hefur engan trúverðugleika í utanríkismálum.“