- Advertisement -

Forréttindi Þjóðkirkjunnar

Og sá grunur læðist að manni að kirkjan eigi jafnvel eftir að selja okkur eignirnar í þriðja skiptið.

Álfheiður Eymarsdóttir, varaþingmaður Pírata fyrir Suðurkjördæmi, skrifar:

Ég vil byrja á því að þakka séra Óskari Hafsteini Óskarssyni fyrir góða grein um sóknargjöld og aðskilnað ríkis og kirkju sem birtist í síðasta tölublaði Dagskrárinnar. Þetta er þörf umræða og mig langar að skýra mín sjónarmið, sjónarmið þjóðfélagsþegns sem er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju.

Laun fyrir land – aftur og aftur
Samningurinn sem gerður var á milli ríkis og þjóðkirkju árið 1997 fól í sér að kirkjan afsalaði sér eignum til ríkisins í skiptum fyrir launagreiðslur presta, biskups og starfsfólki Biskupsstofu.

Við sem þegnar ríkisins vitum sem sé hvorki hvað við erum að greiða mikið né hvað við fáum í staðinn.

Það sem er áhugavert í þessu sambandi er einkum tvennt.

Fyrst ber að nefna að samningur svipaðs efnis var gerður árið 1907. Þá var reyndar gert ráð fyrir að kaupverð eignanna yrði sett í sjóð og ávöxtun eignasjóðsins yrði varið til launagreiðslna til presta. Landssjóður skyldi bæta við fjármunum ef uppá vantaði. Eignasjóðurinn fór á hausinn og árið 1919 voru allir prestar ásamt biskupi komnir á föst laun hjá ríkinu, orðnir embættismenn hins opinbera.

Kirkjan hélt því fram seinna að yfirtaka ríkisins á eignunum árið 1907 hefði verið ólögmæt eignaupptaka og gerði þá kröfu að samið yrði að nýju. Því var gerður nýr samningur árið 1997 þar sem kirkjan seldi ríkinu jarðirnar, í annað sinn.

Í samningnum er ekki upplýst um fjölda jarða né verðmæti þeirra. Þær upplýsingar fást ekki og eru líklega ekki til. Þá ríkir einnig óvissa um heildarkostnað ríkisins vegna launagreiðslna til kirkjunnar.

Við sem þegnar ríkisins vitum sem sé hvorki hvað við erum að greiða mikið né hvað við fáum í staðinn.

(Kostnaðurinn hefur reynst að meðaltali um 1,5 milljarðar á ári síðan 1997, slagar upp í eitt stykki Landsspítala samtals).

Og sá grunur læðist að manni að kirkjan eigi jafnvel eftir að selja okkur eignirnar í þriðja skiptið.

Þetta eru ekki eðlilegir viðskiptahættir.

Frumskógarlögmálin sem Óskar vill forðast, eru því löngu komin til skjalanna í þessari sérkennilegu samningagerð.

Í annan stað verðum við að spyrja okkur hvernig kirkjan komst yfir allar þessar eignir. Þær vangaveltur verða hins vegar að bíða betri tíma enda mörg hundruð ára saga þar að baki sem nær allt aftur til landnáms.

Þess vegna sé ég eftir rúmum milljarði á ári fyrir launagreiðslur til embættismanna kirkjunnar.

Aðstöðumunur og úrsögn úr þjóðkirkjunni
Ég ber mikla virðingu fyrir þjóðkirkjunni sem og öðrum trúfélögum. Siðfræði mótmælenda er falleg. Frá kórastarfi og sáluhjálp til aðstoðar við þá sem minna mega sín, allt er þetta góðra (sóknar)gjalda vert. Er einhver á móti kórastarfi?

En allt þetta starf fer einnig fram innan frjálsra félagasamtaka, góðgerðasamtaka, af hálfu fagaðila á vegum ríkis og sveitarfélaga og svo mætti lengi telja.

Hið opinbera á vart fjármuni til að sinna grunnskyldum sínum, svo sem að halda uppi lögum og reglu, að tryggja framfærslu allra, að viðhalda vegum, að sinna heilbrigði og menntun þjóðarinnar sem skyldi. Þess vegna sé ég eftir rúmum milljarði á ári fyrir launagreiðslur til embættismanna kirkjunnar.

En þjóðkirkjan fær meira en þessum launagreiðslum nemur. Þjóðkirkjan fær einnig sóknargjöld sem innheimt eru í gegnum ríkisskattstjóra. Allir Íslendingar eru skráðir í þjóðkirkjuna við fæðingu. Þeir greiða því sóknargjöldin sjálfkrafa nema þeir segi sig sérstaklega úr þjóðkirkjunni.

Og þrátt fyrir þessa fjármögnun á kostnað okkar allra þá þurfa félagar í þjóðkirkjunni að greiða fyrir alla þjónustu kirkjunnar við einstaka lífsviðburði og athafnir svo sem skírn, fermingu, hjónaband og jarðarfarir.

Mörgum finnst þessi aðstöðumunur þjóðkirkjunnar óréttlætanlegur. Ég tek undir það.

Ákvæði um aðskilnað ríkis og kirkju var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012. Ég trúi á lýðræðið. Fólkið á að ráða. Ég bíð því þolinmóð í 20–30 ár áður en aðskilnaðurinn verður samþykktur. Það er nefnilega óumflýjanleg staðreynd að ríki og kirkja verða aðskilin. Það er ekki spurning hvort, heldur hvenær.

Þangað til verður þjóðkirkjan í áskrift að fjármunum okkar sem renna til launa presta í gegnum samninginn sem gerður var árið 1997. En við getum ráðstafað sóknargjöldunum að vild.

Gerum það.

Greinin birtist fyrst á dfs.is.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: