- Advertisement -

Fórna pólitískri innistæðu Lilju og Kolbeins

Lilja Rafney: „Manni finnst oft að úti í þjóðfélaginu vilji menn ekki skilja hver er munur á hægri og vinstri, þetta sé allt orðið eins og enginn munur þar á.“

Ákvörðun hefur sennilega verið tekin um að fórna pólitískri innistæðu þeirra Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og Kolbeins Óttarssonar Proppé, sem eflaust er mismikil. Þau eru nú látin svara fyrir lækkun veiðigjalds, nokkuð sem flokkur þeirra, Vinsri græn, lofaði að hækka fyrir kosningarnar í fyrra. Aðild að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki er aldrei ókeypis og við blasir að Vinstri græn þurfa að kyngja enn einu baráttumálinu.

Svipuð staða var á Alþingi fyrir fáum árum, í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þá voru veiðigjöldin lækkuð. VG var í stjórnarandstöðu og Lilja Rafney var þá varaformaður atvinnuveganefndar, þar sem hún er formaður nú, og því talsmaður síns flokks í málin, þá og nú.

LRM: „Skera svo niður framtíðartekjur ríkissjóðs.“

„Varðandi veiðigjöld þá segi ég það enn og aftur að mér finnst með ólíkindum að menn hafi kjark til að ganga hér fram og skera svo niður framtíðartekjur ríkissjóðs á þennan hátt án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvernig mæta eigi þessum miklu tekjulækkunum hjá ríkissjóði,“ sagði Lilja Rafney þá.

Hún hlustaði ekki á umkvartanir útgerðarinnar, annað en nú. Lilja Rafney sagði:

„Ég gæti skilið þetta kvart og kvein ef útgerðin hefði ekki borð fyrir báru, ef hún væri í miklu basli eins og hún hefur oft og tíðum verið.“

Og þetta sagði hún um vinnubrögð þáverandi ríkisstjórnar:

„Nei, ég held að menn ættu aðeins að staldra við því að þetta hefur afleiðingar og fólk lætur ekki bjóða sér vinnubrögð af þessu tagi.“

Hvað hefur breyst?

Sem asnalegir tækifærisinnar

Vinstri græn þurfa að borga drjúgt fyrir aðildina að ríkisstjórninni. Lilju Rafneyju og Kolbeini verður fórnað. Þau eru látin líta út sem asnalegir tækifærissinnar. Berjast um á hæl og hnakka fyrir helsta stefnumáli Sjálfstæðisflokksins, og auðvitað Framsóknarflokksins, og því máli sem Vinstri græn hafa barist gegn og reyndar viljað hið gagnstæða, það er að hækka veiðigjöldin.

Lilja Rafney þá stjórnarandstæðingur sagði: „Manni finnst oft að úti í þjóðfélaginu vilji menn ekki skilja hver er munur á hægri og vinstri, þetta sé allt orðið eins og enginn munur þar á.“ Í dag eru þetta eru orð að sönnu, það er að því gefnu Vinstri græn hafi þá einhvern tíma verið vinstri flokkur.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: