Meðan rétt um 25 þúsund hafa skrifað undir vilja til nýrrar stjórnarskrár vinna formenn stjórnmálaflokkanna á Alþingi að allt öðru. Þeir verjast sem mest þeir geta. Vilja fáar og gagnslitlar breytingar á stjórnarskránni. Einn sá harðasti í vörninni er Óli Björn Kárason Sjálfstæðisflokki. Sá skrifar grein í Moggann í dag. Hér á eftir fer niðurlag greinar þingmannsins:
„Formenn þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar. Verkstjórnin er í höndum forsætisráðherra sem í lok júní sl. birti í samráðsgátt drög að frumvarpi. Alls bárust 215 umsagnir um frumvarpsdrögin en tekið er fram að formennirnir hafi ekki undirgengist skuldbindingu í þessum efnum.
Með þessu vinnulagi hefur forsætisráðherra lagt drög að því að tryggja að breið sátt náist um breytingar á æðstu réttarheimild þjóðarinnar sem er yfir önnur lög hafin. Þannig er viðurkennt hve nauðsynlegt það er að umgangast stjórnarskrá af virðingu, vinna að nauðsynlegum breytingum af yfirvegun og tryggja almennan stuðning. Með slíkum vinnubrögðum hefur stjórnarskrá lýðveldisins fengið að þróast, ekki í takt við dægurflugur einstakra hagsmunahópa eða stjórnmálaflokka, heldur eftir yfirlegu og ítarlegar umræður. Af 79 efnisgreinum stjórnarskrárinnar hefur 45 verið breytt eða þeim bætt við. Og stjórnarskráin hefur lagt traustan grunn undir ríkisstjórn laga en ekki manna, þar sem grunngildi mannréttinda og einstaklingsfrelsis eru tryggð.“