Unnur Valborg Hilmarsdóttir hefur verið skipuð formaður Ferðamálaráðs og Eva Björk Harðardóttir varaformaður. Stjórn Ferðamálaráðs er skipuð til fjögurra ára í senn, síðast frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2018. Það á ekki við um formann og varaformann. Skipun þeirra er takmarkaður við embættistíma ráðherra.
Það var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ráðherra ferðamála sem skipaði þær Unni Valborgu og Evu Björk.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir er oddviti sveitarstjórnar Húnaþings vestra, rekur íbúðagistinguna Sólgarð á Hvammstanga og á og rekur fyrirtækið Aðstoðarmaður ehf. Hún hefur áralanga reynslu af rekstri og stjórnun. Undanfarin ár hefur hún starfað við stjórnendaþjálfun og námskeiðahald, verið framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands á Hvammstanga, framkvæmdastjóri Dale Carnegie á Íslandi og aðstoðarframkvæmdastjóri Hreyfingar. Hún er með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og Diploma í viðskipta- og rekstrarfræðum frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hún hefur einnig lokið prófi í stjórnendamarkþjálfun frá Opna Háskólanum og Coach U.
Eva Björk Harðardóttir er oddviti sveitarstjórnar Skaftárhrepps og hótelstjóri Hótels Laka í Efri-Vík skammt frá Kirkjubæjarklaustri, þar sem hún hefur um árabil rekið umsvifamikla ferðaþjónustu. Hún er með B.Ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands.
Aðrir í ferðamálaráði eru: Halldór Benjamín Þorbergsson, Ingibjörg Guðjónsdóttir og Þórir Garðarsson tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar, Aldís Hafsteinsdóttir og Hjálmar Sveinsson tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ásbjörn Björgvinsson og Díana Mjöll Sveinsdóttir tilnefnd af Ferðamálasamtökum Íslands og Jón Ásbergsson tilnefndur af Íslandsstofu.