Formaður VR minnist ekki einu orði á þann mikla árangur sem breiðfylkingin náði í að leiðrétta kjör ræstingafólks
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifaði
Formaður VR rekur í pistli á Heimildinni atburði í kjarasamningum og kjarabaráttu ársins sem er að líða. Afstaða hennar í nokkrum atriðum vekur athygli mína.
Hún segir það hafa verið umdeilt innan verkalýðshreyfingarinnar að bjóða hófstilltar launahækkanir í skiptum fyrir innihaldsmikinn aðgerðapakka frá ríkinu, og til að reyna að ná verðbólgu og vöxtum niður. Þetta er einfaldlega rangt. Það sem rifist var um innan verkalýðshreyfingarinnar var hvort að fara ætti fram með kröfu um flata krónutöluhækkun til að ná fram mestum kjarabótum fyrir láglaunafólk (það vildi Efling og SGS undir forystu Vilhjálms Birgissonar) eða hvort að nauðsynlegt væri að mæta kröfu BHM og hærri launaðra hópa innan ASÍ um prósentuhækkanir. Kröfu sem að sett var fram í ræðu og riti af miklu offorsi, þar sem að grundvallarrökin fyrir mikilvægi prósentuhækkana var að jöfnuður á milli verkafólks og menntaðra væri of mikill og slíkt væri ekki hægt að þola. Hjá félögunum sem að tilheyra ASÍ var samstaða um annað. Kannski er formaður VR að vísa til umræðna innan BHM og BSRB – en hún hefur lengi haft mikinn áhuga á kjarabaráttu og áherslum opinberu félaganna.
Nýr formaður VR er enn undrandi á því að SA hafi sett á VR verkbann þegar að VR ætlaði að loka Keflavíkurflugvelli með verkföllum til að fá Icelandair til að afnema tvískiptar vaktir hjá 170 starfmönnum. Það er skrítið að hún hafi ekki náð að reflektera á þá atburðarás. VR klauf sig frá breiðfylkingunni vegna andstöðu við forsenduákvæði langtíma kjarasamnings. Allt annað var að mestu frágengið. Meðal annars pakkinn frá ríkinu og ókeypis skólamáltíðir fyrir öll grunnskólabörn landsins. Það var (næstum) öllum ljóst að ríkisstjórnin og SA myndu aldrei heimila að sjálfum Keflavíkurflugvelli yrði lokað á þeim tímapunkti. Svo virtist vera sem samninganefnd VR spilaði þennan fífldjarfa leik án þess að vera með nokkra strategíu eða taktíska áætlun. Þegar verkbannið var sett á félagið hefði eina leiðin til að sýna styrk og alvöru með verkfallshótuninni verið að neita að greiða úr vinnudeilusjóði félagsfólks VR – en VR tilkynnti því sem næst samstundis að allir sem að verkbannið næði til myndu fá greitt úr sjóðnum, og með þeirri ákvörðun gufuðu þeir örlitlu möguleikar sem að VR átti á því að vinna smávægilegan sigur eftir að hafa hegðað sér með svo áhættusömum hætti, upp. Ég hef sagt á miðstjórnarfundi og segi það hér: Eina leið íslenskrar verkalýðshreyfingar til að losna við verkbanns-ógnina er að um leið og SA tilkynni verkbann sé allsherjarverkfall boðað hjá öllum félögum ASÍ. Það þýðir ekkert að velta sér upp úr því að SA séu vond og óforskömmuð – það þarf að hugsa um vandamálið og finna lausn. Nýr formaður VR hefur haft til þess ríflega níu mánuði en virðist vera föst á sama (van)greiningarstað og kom VR í vandræðin til að byrja með.
Í umfjöllun sinni um kjarasamningana minnist formaður VR ekki einu orði á þann mikla árangur sem að breiðfylkingin náði í að leiðrétta kjör ræstingafólks – en sá hópur inniheldur að mestu aðfluttar konur. Efling og SGS lögðu gríðarlega mikla áherslu á að sérstök hækkun kæmi til þessara kvenna (eins og Efling gerði í verkföllunum 2020 hjá borginni), og með stuðningi félaga okkar í Samiðn og Byggiðn tókst það. Og auðvitað vegna þess að Efling gat sett fram trúverðuga hótun um verkfall. Í harðri verkalýðsbaráttu skiptir jú fátt meira máli en trúverðugleiki.
Formaður VR er mikil áhugamanneskja um kvennabaráttu. Hún hefur til dæmis á vettvangi ASÍ verið ötull stuðningsmaður verkefnisins um endurmat hins opinbera á kvennastörfum opinberra starfsmanna. Þrátt fyrir að ASÍ sé samband stéttarfélaga á almenna markaðnum hefur nýr formaður VR viljað að athygli og orka nefnda miðstjórnar fari í að liðsinna opinberu félögunum við að leiðrétta kjarasamningsumhverfi þeirra. Hún hefur líka barist fyrir kynjakvóta í miðstjórn ASÍ – þrátt fyrir að slíkt sé bersýnilega ekki hægt að innleiða, nema þá með því að ASÍ taki að sér að stjórna félags-pólitísku mannavali í öllum félögum sambandsins. En þrátt fyrir þennan mikla áhuga á femínisma virðist vera að henni finnist ekki sérstaklega merkilegt þegar lægst launuðu konur Íslands ná, með því að hóta því að fara í verkfall, raunverulegt kvennaverkfall, frábærum árangri í sinni hörðu kjarabaráttu. Það er, ásamt ýmsu öðru, undarlegt að sjá.