Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, segir í Moggagrein í dag, að sér þyki sú gagnrýni sem settur hefur verið fram á Bláa lónið vera árás á fyrirtæki og fólk. Hann nefnir aldrei Bláa lónið en víst er að hann hefur það í huga þegar hann skrifar greinina.
„Úrræðið felur ekki í sér að starfsmenn afsali sér uppsagnarfresti sínum. Þeir eiga þann kost að hafna minnkuðu starfshlutfalli og verður þá sagt upp störfum og fá greidd laun á uppsagnarfresti. Þegar gildistíma úrræðisins lýkur verður almennur réttur þeirra til atvinnuleysisbóta sá sami og áður en gripið var til þess,“ skrifar formaður SA.
Hann endar skrif sín með þessum hætti: „Árásir undanfarinna daga á einstaka fyrirtæki, vegna beitingar ofangreinds úrræðis til að vernda starfsfólk sitt, eru í besta falli umhugsunarverðar. Ég vona og trúi því að við metum það ofar að vernda fólkið okkar, tryggja afkomu þess og störf til framtíðar frekar en að leggjast í pólitískar og hugmyndafræðilegar skotgrafir og níða skóinn af fólki og fyrirtækjum. Nú þurfum við á samstöðu að halda, ekki sundrungu.“
Sitt sýnist eflaust hverjum. Hvert og eitt okkar má og verður reyndar að hafa skoðanir á því sem gert er. Bláa lónið hefur gefið vel af sér og það er ekkert að því að gagnrýna að það skuli fyrst fyrirtækja sækja sér styrk úr ríkissjóði.