Ólafur Arnarson hefur sagt af sér formennsku Neytendasamtakanna. Miklar illdeilur hafa verið í stjórn samtakanna sem hafa leitt til þessa.
Ólafur hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins.
„Engum sem fylgst hefur með ágreiningi innan stjórnar Neytendasamkanna getur dulist að hann hefur laskað ímynd þeirra. Engum sem til samtakanna þekkir getur heldur dulist að um margra ára skeið hafa þau visnað og veikst með margvíslegum hætti og í raun flotið hægt og bítandi að feigðarósi. Skýrastu einkenni þessarar óheillaþróunar má annars vegar sjá í fækkun félagsmanna og hins vegar í því að þjónustusamningar við stjórnvöld eru aðeins svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. Láta mun nærri að frá aldamótum hafi tekjur af samningum við ríkið um neytendaaðstoð minnkað um 80% og auðvitað munar um minna. Taprekstur undanfarinna ára skýrist af miklum tekjusamdrætti en ekki auknum útgjöldum. Það er kjarni málsins.
Ég tók við formennsku í Neytendasamtökunum í október á síðasta ári til þess að freista þess að blása lífi í glæðurnar og nýta augljós tækifæri til nýrrar sóknar. Stærsta áherslumál mitt var að nota tæknina í þágu neytenda með því að koma á fót appi fyrir snjalltæki, sem færir m.a. verðsamanburð í lófann á neytendum. Þremur mánuðum eftir að ég var kosinn formaður kynntu Neytendasamtökin, ásamt hugbúnaðarfrumkvöðlunum í Strimlinum ehf., appið Neytandann. Neytandinn er eitt vinsælasta appið á Íslandi og notendur eru orðnir á þriðja tug þúsunda. Vel á annað hundrað þúsund strimlar hafa verið lesnir inn í gagnagrunn og næstum 1,5 milljón verðmælingar. Á hverjum degi eru lesnar u.þ.b. 5000 verðmælingar inn í gagnagrunninn.
Þessari nýju tækni var einnig ætlað að renna styrkum stoðum undir nýja og umfangsmeiri þjónustusamninga við ríkið og endurreisa þannig viðunandi rekstrargrundvöll fyrir áframhaldandi starf samtakanna. Þegar stjórn samtakanna hefur nú tekið þá ákvörðun að segja upp öllu starfsfólki þeirra er ljóst að Neytendasamtökin hafa enga burði til að efna skuldbindingar sínar vegna núgildandi samninga og vandséð er að stjórnvöld muni ganga til nýrra samninga við samtök sem því miður virðast vera við það að liðast endanlega í sundur. Það er mikið áhyggjuefni og auðvitað yrðu það mikil vonbrigði ef samtökin næðu ekki að gegna áfram hinu þýðingarmikla hlutverki sínu í varðstöðu um hag neytenda í landinu.
Stjórn Neytendasamtakanna hefur borið mig þungum sökum. Allar eru þær á skjön við raunveruleikann og sumar beinlínis upplognar. Ég hef hrakið þessar ávirðingar lið fyrir lið með þeim afleiðingum að í síðustu yfirlýsingu sinni lætur stjórnin sér nægja að halda því fram í almennum orðum og án nokkurs rökstuðnings að alvarleg fjárhagsstaða sé „að mestu leyti tilkomin vegna óhóflega útgjalda“ sem ég hafi „efnt til án aðkomu stjórnar“. Enginn fótur er fyrir þessum ásökunum. Enginn fótur er heldur fyrir því að fjárhagslegur vandi samtakanna sé vegna útgjalda. Samtökin glíma við alvarlegan tekjuvanda og um það er stjórnin fullkomlega meðvituð enda þótt hún kjósi að skrifa margra ára uppsafnaðan vanda sinn á minn reikning.
Enda þótt ég telji mikið hafa áunnist í sókn Neytendasamtakanna á síðustu mánuðum og að sýnileiki samtakanna hafi aukist verulega verður ekki fram hjá því litið að óvinnandi vegur er fyrir mig að vinna að áframhaldandi framgangi þeirra við núverandi aðstæður innan stjórnarinnar. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem hafa stutt mig bæði í starfi mínu fyrir samtökin og einnig í átökunum innan stjórnarinnar. Ég segi hér með af mér sem formaður Neytendasamtakanna og læt um leið í ljós þá von að þeim sem standa munu við stjórnvölinn á næstu misserum og árum muni takast að rétta skútuna við.“
Reykjavík, 10. júlí 2017
Ólafur Arnarson