Formaður Eflingar þakklát
Sólveig Anna skrifaði í gærkvöldi:
Takk, elsku fólk fyrir daginn. Hann var merkilegur, fallegur og sögulegur. Samstaðan er okkar sterkasta vopn og við sönnuðum í dag að hún er óumdeilanlega stórkostlega mikil í okkar röðum. Með hana að vopni munum við ná árangri, ég veit það.
Stál og hnífur er merki mitt, söng Bubbi Morthens og ég þakka honum mikið og innilega fyrir að koma til að vera með okkur, til að sýna okkur stuðning, samstöðu. Að eiga bandamenn er eitt það mikilvægasta sem hægt er að hugsa sér fyrir okkur sem að nú berjumst fyrir virðingu og réttlæti.
Ef við eignumst einhvern tímann okkar eigið lag þá myndi ég vilja að það héti Hjarta og hnefi. „Hjarta“ af því að við notum hjartað okkar á hverjum degi við vinnuna, þegar við önnumst og aðstoðum ungviðið og gamalt fólk, og „hnefi“ vegna þess að virðingarleysið sem okkur er sýnt um hver einustu mánaðamót leiðir óumflýjanlega til baráttuvilja og baráttugleði sem að ekkert getur stöðvað.
Við munum ekki gefast upp.
Sjáumst fljótt aftur.