Forleikurinn að stjórnarslitunum
Ríkisstjórnin hefur stuggað við sínu verðmætasta baklandi. Ósætti er með uppggjöfina í veiðigjaldamálinu og sama er að segja um afstöðu heilbrigðisráðherra til einkareksturs. Stjórnarandstaða hefur myndast þar sem síst skyldi.
Vitað er að fátt er Sjálfstæðisflokki, og formanni hans Bjarna Benedikltssyni, mikilvægara en stuðningur Morgunblaðsins og ritstjóra þess, Davíðs Oddssonar. Davíð og Morgunblaðið boðar breytingar þar á. Tvær ástæður eru nefndar um slaka frammistöðu Sjálfstæðisflokksins, sem og samstarfs flokkanna.
Hið fyrra eru endalok lækkunnar veiðigjalda. Þau er ritstjóranum, Morgunblaðinu og útgefendum þess ekki að skapi.
„Stefnu- og forystuleysi“
„Ríkisstjórnin gafst upp og bakkaði í vikunni frá málum sínum við minnsta mótbyr. Litlum minnihluta á þingi er leyft að taka völdin og eftir situr veikari ríkisstjórn sem hefur sýnt slíkt stefnu- og forystuleysi að erfitt er að sjá að hún muni ná tökum á því verkefni sem henni hefur verið falið.“
Þannig hefst leiðari dagsins í Mogganum. Uppgjöf ríkisstjórnarinnar, og þá væntanlega einkum Sjálfstæðisflokksins, veldur vonbrigðum í Hádegismóum. Um leið sést hversu staðan er alvarleg. Aðeins hálfu ári eftir stjórnarmyndunina. Nú er fokið í flest skjól.
„Önnur birtingarmynd veikleikans“
Það er ekki bara uppgjöfin í veiðigjaldamálinu sem fær hár ritstjórans til að ýfast. Svandís Svavarsdóttir hefur, að mati Moggans, stigið yfir línuna.
„Á sama tíma og ríkisstjórnin sýnir þessi veikleikamerki gerist það – og ef til vill má segja að það sé önnur birtingarmynd veikleikans – að heilbrigðisráðherra rekur af mikilli óbilgirni stefnu sem ekki verður séð að samstarfsflokkarnir í ríkisstjórnarsamstarfinu hafi skrifað upp á. Heilbrigðisráðherrann er kominn í stríð við einkarekstur í heilbrigðiskerfinu og virðist hafa einsett sér að nýta tímann í ráðuneytinu til að þrengja eins og kostur er að einkarekinni heilbrigðisstarfsemi.“
Þarna er mikil alvara á ferðum. Svandís gerir sig líklega til að skrúfa fyrir sjálftökukranann. Það má ekki að mati ritstjórans og Moggans.
„Að brjóta niður kerfið“
„Um leið undirbýr ráðherrann að auka umsvif hins ríkisrekna kerfis á kostnað einkarekinnar þjónustu, þó að ljóst megi vera að hagkvæmt sé að reka hluta heilbrigðiskerfisins utan stóra ríkisspítalans,“ segir í leiðara dagsins.
Og svo að endingu kom þetta:
„Þó að margt megi vissulega bæta er íslenska heilbrigðiskerfið í grunninn mjög gott og með því að auka svigrúm sjálfstætt starfandi lækna og fyrirtækja á heilbrigðissviði má nýta fjármuni enn betur og byggja upp framúrskarandi heilbrigðiskerfi hér á landi. Hættan er þó sú, að heilbrigðisráðherra fái áfram óáreittur að brjóta niður kerfið og laga það að kreddum um að ríkið eitt megi veita heilbrigðisþjónustu. Fari svo mun þjónustan versna mjög og fórnarlömbin verða þá þeir sem leita þurfa þjónustu heilbrigðiskerfisins; allur almenningur í landinu.“