„Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram ýmsar tillögur sem snúa að því að bæta þjónustu og liðka fyrir aðgengi að borginni svo allir geta notið hennar. Það hugnast þessum meirihluta ekki. Þessi meirihluti sýnir ákveðna fordóma gagnvart fjölskyldufólki í úthverfum sem þarf að nota bíl í sínu daglega lífi,“ sagði Kolbrún Baldursdóttir, Flokki fólksins, á borgarstjórnarfundi, þegar rætt var um fjárhagsáætlun næsta árs.
„Í þessari fjárhagsáætlun er aftur ítrekað að ekki er tekið nægjanlega tillit þeirra hópa sem minnst mega sín. Það tekur á að svo margir, sem raun ber vitni, eiga um sárt að binda í svo ríkri borg sem Reykjavík er. Flokkur fólksins vill sjá næstu fimm árin í borginni með öðrum hætti en meirihlutinn leggur upp með. Flokkur fólksins vill að börn, öryrkjar og eldri borgarar fái fullan forgang. Minnt er á að nýlega er búið að skrifa undir samning um stuðning félagsmálaráðuneytisins við innleiðingu á verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Ekki hefur verið farið vel með útsvarsfé borgarbúa. Nærtækast er bruðlið með kostnað við borgarstjórnarfundi. Borgin státar af góðu gengi þótt skuldastaða hafi versnað. Þjónustu er víða ábótavant. Væri betur haldið á spilunum fjárhagslega væri hægt að draga úr lántöku og vinna á biðlistum. Vandi skóla- og frístundasviðs er augljós og hvernig óskir skóla hafa verið hunsaðar er óásættanlegt.