Kannski er staða eftirlaunasjóða toppur geðveikinnar.
Stærstu seðlabankar heims eru búnir að eyðileggja hagkerfi heimsins. Eðlilegt hringstreymi fjármagnsins hefur kerfisbundið verið rofið á síðustu 10 árum. Þegar upp er staðið er augljóst að topparnir sem stjórna helstu seðlabönkunum vinna aðallega fyrir 0,01% elítuna og sú elíta, sem var tæknilega búin að tapa rosalega í Hruninu 2008-2009, hefur grætt fordæmalaust síðasta áratuginn. Ráðsettir sparifjáreigendur hafa verið sviknir um eðlilega innlánsvexti og allt að því ókeypis fjármagn (fyrir útvalda) hefur stuðlað að hættulegra braski en heimurinn hefur nokkru sinni séð.
Kannski er staða eftirlaunasjóða toppur geðveikinnar. Í örvæntingarfullri leit að ávöxtun (sem oft er lögbundin) hafa þeir þrætt vægast sagt vafasamar slóðir (brask með fasteignabréf, ruslaskuldabréf o.s.frv.) og nú blasir hyldýpið við. Samkvæmt World Economic Forum vantar eftirlaunasjóði (lífeyrissjóði) heimsins $70.000 MILLJARÐA til þess að geta staðið við skuldbindingar sínar. Hagkerfi alls heimsins framleiðir að andvirði um $80.000 milljarða á ári.
Eftirlaunasjóður japanskra ríkisstarfsmanna gaf okkur nýlega smjörþefinn af því er koma skal. Reiknað í íslenskum krónum tapaði hann 16.320 milljörðum kr. á síðustu þrem mánuðum 2018. Hlutabréfamarkaðir lækkuðu á þessu tímabili, en guð hjálpi þessum sjóðum (og fjölda fyrirtækja sem ganga eingöngu á framleiðslu skulda) þegar raunverulegar lækkanir hefjast á þessum mörkuðum sem sitja á stærsta skuldafjalli fjármálasögunnar.