„Einn hópur má heldur ekki gleymast og það eru konurnar sem þrífa stofurnar á gjörgæslunni en líka öndunarvélarnar, skurðverkfæri og skurðstofur. Þetta starfsfólk er klárlega í aukinni sýkingarhættu og eru þar að auki á skammarlega lágum launum. Þær eru flestar af erlendu bergi brotnar og harðduglegar og jákvæðar- líka nú við þessar krefjandi aðstæður. Því ber að fagna – og ekki má gleymast að sýna þeim og þeirra mikilvægu störfum virðingu,“ skrifaði Tómas Guðbjartsson læknir.
„Ég hef mest fjallað um þátt hjúkrunarfræðinga – enda eru þær langstærsta tannhjólið í þessu Covid-19 stríði,“ skrifar Tómas. „Að auki er þær með krónískt lausa samninga (sem er hneyksli) þar sem viðsemjandinn hefur sýnt lítinn lit í að semja. Með því að leggja áherslu á hlutverk hjúkrunarfræðinga er ég á engan hátt að draga úr mikilvægi annarra stétta, eins og t.d. læknakollega minna og þá sérstaklega ungu sérnámslæknanna, eða sjúkraliða sem hvort tveggja eru hópar í afar mikilli snertingu við sýkta sjúklinga. Öll myndum við teymi þar sem allir hlekkir keðjunnar verða að halda. Þannig er það bara – og ég hef aldrei haldið öðru fram.“