Vilhjálmur Birgisson skrifar:
Þessi ákvörðun er fullkomlega eðlileg í ljósi þess að það tókst að koma í veg fyrir að fyrirtækið með aðstoð Samtaka atvinnulífsins tækist að fótum troða samningsrétt launafólks með því að segjast ætla að „semja“ bara við einhvern „annan“. Þessi hótun fyrirtækisins og Samtaka atvinnulífsins var ein mesta aðför sem gerð hefur verðið að samningsrétti launafólks í marga áratugi.
Nú held ég að það sé þjóðráð að bæði atvinnurekendur og fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar komi sér saman um að framvegis verði það eigendur lífeyrissjóðanna (sjóðfélagar) sem kjósi sér alla stjórnarmennina og núverandi helmingaskiptingu Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar í stjórnir sjóðanna verði hætt.
Viss um að fulltrúum Samtaka atvinnulífsins mun ekki hugnast að sleppa stjórnarsætum í sjóðunum en þetta á klárlega að gera enda er lífeyrir launafólks kjarasamningsbundin réttindi sem þeir eiga og því eiga þeir að kjósa sér aðila til að stýra sjóðunum.