- Advertisement -

Fólkið er kúgað og hrætt við kóngana

Vigfús Ásbjörnsson, félagsmaður í Hrollaugi, skrifar:

Svandís, þjóðin reiðir sig á þig. Vertu sjávarútvegráðherra fólksins.

Arður til þjóðarinnar af nýtingu auðlinda er ekki bara í beinhörðum aurum í ríkiskassa. Arður af auðlindinni er einnig í formi aðgengis þjóðarinnar að nýtingu auðlindarinnar. Það þarf að dreifa arðseminni allt í kringum landið og veita eigendum auðlindarinnar, sem er þjóðin, mannsæmandi aðgengi til að skapa sér störf og arð úr auðlindinni sjálf.

Það getur ekki verið hagkvæmt fyrir heildarmyndina að taka atvinnutækifærin frá fólkinu og gera þau atvinnulaus.

Það getur ekki verið hagkvæmt að leggja byggðarlög í rúst og búa til heilu þorpin sem þurfa að vera á atvinnuleysisbótum allt árið og þar með gera allar eignir innan viðkomandi byggðarlaga verðlausar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Siðleysi er ofbeldi.

Það getur heldur ekki verið hagkvæmt að arður verði bara til á örfáum stöðum í kringum landið, til örfárra aðila sem geta stýrt því hvar þeir taka arðinn út úr greininni, annað hvort hér á landi eða í skattaparadísum. Hvort sem einhver reyni að telja sér trú um að það sé hagkvæmt eða ekki, þá er það að öllu leiti siðlaust.

Siðleysi er ofbeldi. Tækniframfarir eru orðnar svo rosalegar að alltaf færri og færri hendur geta sótt sér atvinnu hjá þessum blokkum. Þannig að aurar af auðlindinni fara alltaf í færri og færri hendur, ekki bara út af samþjöppuninni heldur líka vegna tækniframfara.

Nú eru að verða til einskonar konungsríki í hverjum landshluta alveg eins og á miðöldum. Ef þú hefur skoðanir sem samræmast ekki skoðunum kónganna þá er farið á eftir þér með því að grafa undan þér. Kyssa skaltu hendur kóngana og þóknast þeim í einu og öllu. Alveg eins og á miðöldum.

Fólkið er skoðanakúgað og hrætt við kóngana sem virðast svífast einskis. Hugsanir og orð fara ekki saman hjá kúguðu fólki því ef það segir það sem það hugsar mun verða séð til þess að það eigi sér ekki viðreisnarvon.

Þetta er ekkert öðrvísi.

Peningaþorstinn er orðinn svo mikill í þessum konungsríkjum að þau eru orðin blind af græðgi, og beita hvaða aðferð sem er til að fá meira. Nú er allavega eitt konungsríkið. Þetta í Vestmannaeyjum, sem er að krefjast skaðabóta frá fólkinu í landinu í formi peninga vegna þess að þeim finnst að fólkið í landinu hafi ekki látið fyrirtækið í té nóg af auðlindum sínum í makríl.

Konungsríkið í Vestmannaeyjum fékk samt alveg risa skerf af auðlindum fólksins til sín, það vildi bara meira frá því af því kóngurinn er orðinn af aurum api. Alveg eins og á miðöldum. Þetta er ekkert öðrvísi. Getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt og eins og við vitum þá er þetta siðlaust og siðleysi er ofbeldi. Þjóðin er beitt þessu ofbeldi og konungsríkin nota kjörna þjóna þjóðarinnar á Alþingi sem innheimtumenn þegar þeir taka til sín auð þjóðarinnar. Ofbeldi var einmitt leiðin á miðöldum líka, Svandís, þjóðin reiðir sig á þig allt í kringum landið. Vertu sjávarútvegráðherra fólksins. Þjóðin á það skilið Svandís Svavarsdóttir.

Sjá einnig https://m.facebook.com/groups/745226868968513/permalink/2037230943101426/


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: