„Átakalínur í íslenzkum stjórnmálum hafa breytzt. Afstaða flokka til átaka kalda stríðsins ræður ekki lengur för en í þess stað hafa komið mjög ólík viðhorf til þess hversu langt eigi að ganga í samskiptum og samstarfi við Evrópusambandið.“
Þetta er hluti af grein Styrmis Gunnarssonar í Mogganum í dag. Styrmir fjallar í nokkrum orðum um stöðu einstakra flokka.
Sjálfstæðisflokkur/Miðflokkur/Framsóknarflokkur: Sú ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins að standa að samþykkt orkupakka 3 á Alþingi hefur opnað Miðflokknum leið að sumum kjósendahópum hans og þá ekki sízt meðal eldri kjósenda. Þetta á við í enn ríkara mæli gagnvart Framsóknarflokknum, sem í raun er í lífshættu vegna þess máls.
Viðreisn: Viðreisn sem er fyrst og fremst klofningsbrot úr Sjálfstæðisflokknum, á í erfiðleikum með að ná flugi. Sennilega er ástæða sú að flokknum hefur ekki tekizt að sýna kjósendum fram á hver stefna hans er að öðru leyti en því að flokkurinn vill að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það eitt dugar ekki að segjast vera „frjálslynd“.
Samfylkingin/Flokkur fólksins: Samfylkingin virðist eiga við áþekkan vanda að stríða og Viðreisn. Flokknum hefur ekki tekizt að sýna fram á hver hann er og stríðir við þann ímyndarvanda að hann sé fyrst og fremst hagsmunahópur vinstrisinnaðra háskólaborgara. Það er liðin tíð að litið sé til þess flokks sem sérstaks málsvara þeirra sem minna mega sín. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, er eini þingmaðurinn sem veitir þeim þjóðfélagshópum rödd á Alþingi. Þetta þýðir að Samfylkingin er í tilvistarkreppu eins og m.a. má sjá á afstöðu Reykjavíkurborgar til kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Vinstri græn: Vinstri grænir munu eiga á brattann að sækja í næstu kosningum vegna samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í núverandi ríkisstjórn en kannski er mesta hættan fyrir VG sú að til verði nýr Græningjaflokkur á Íslandi á þeirri forsendu að VG hafi fórnað of mörgum stefnumálum sínum á því sviði í samstarfi innan núverandi ríkisstjórnar. Að auki er orðið mjög erfitt að greina hvar VG stendur í afstöðu til ESB.
Píratar: Píratar verða meira og meira spurningarmerki vegna þess hversu erfitt er að festa hendur á hver stefna þeirra í málefnum samfélagsins raunverulega er.
En jafnframt má búast við að þróun lýðræðisins á Íslandi verði mjög til umræðu. Með aukinni upplýsingu hafa kröfur fólks um lýðræðislega málsmeðferð og gagnsæi í ákvörðunum kjörinna fulltrúa aukizt mjög. En um leið er nokkuð ljóst að hinir kjörnu fulltrúar hverju sinni eiga erfitt með að skilja þær kröfur eða skynja. Orkupakkamálið er mjög skýrt dæmi um það. Og ferðir einstakra hópa til forseta Íslands með óskum um að hann hlutist til um aðkomu almennings að slíkum ákvörðunum eru ein birtingarmynd um kröfugerð almennra borgara um slíkt. Um leið má kannski segja að fólk vantreysti þingræðinu meira en áður.