Ásmundur segir allt vera í klessu
„Á Íslandi eru hópar sem hafa það bágt, heimilislausir, eldri borgarar sem komast ekki í viðeigandi húsnæði. Þarf þetta fólk að koma með flugi til landsins og biðjast hælis í eigin landi til að fá sömu þjónustu og við bjóðum hælisleitendum?“ Ásmundur Friðriksson.
„Hingað streymir óheftur fjöldi hælisleitenda með þeim afleiðingum að allt íbúðarhúsnæði er uppurið. Ég benti á þá staðreynd fyrir löngu og þarf ekki að endurtaka það hér. Staðan í húsnæðismálum er í raun svo slæm að innviðaráðherra hefur komið fram með frumvarp um breytingar á skipulagslögum svo taka megi húsnæði; skrifstofubyggingar og skemmur utan þjónustusvæða, og breyta þeim í íbúðir fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Og það þrátt fyrir að búið sé að henda tugum leigjenda á götuna til þess að rýma fyrir þessum hópi flóttafólks,“ þetta segir í nýrri Moggagrein eftir Ásmund Friðriksson Sjálfstæðisflokki.
„Staðan í þessum málaflokki er sérstaklega slæm á Suðurnesjunum. Börn hælisleitenda komast ekki í skóla svo mánuðum skiptir eftir komu til landsins. Það er ekkert námsefni til fyrir þau á þeirra móðurmáli og tungumálaörðugleikar milli kennara og nemenda. Þetta kemur auðvitað niður á öðrum nemendum grunnskólanna líka. Íbúar á Suðurnesjum búa við breyttan veruleika. Hópamyndanir hælisleitenda, að uppistöðu til ungra karla, valda því að mörgum þykir óþægilegt að fara í búðina, sund eða strætó. Þetta heyri ég ítrekað í samtölum mínum við íbúa á svæðinu.
Til þess að geta tekið sómasamlega á móti fólki í neyð, sem ég vil að við gerum, þurfum við að takmarka fjöldann við það sem innviðirnir þola; húsnæði, menntakerfi, löggæslu og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Á Íslandi eru hópar sem hafa það bágt, heimilislausir, eldri borgarar sem komast ekki í viðeigandi húsnæði. Þarf þetta fólk að koma með flugi til landsins og biðjast hælis í eigin landi til að fá sömu þjónustu og við bjóðum hælisleitendum?“
Athugið að þetta er ekki öll greinin. Hægt er að lesa hana alla í Mogga dagsins.