„Eftir það hef ég fengið þrjár upphringingar frá grátandi fólki vegna þess að hann sló það gjörsamlega út af borðinu að það ætti að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir þennan fátækasta þjóðfélagshóp nú fyrir jólin. Þetta er þyngra en tárum taki, virðulegi forseti.“
„Það var í tíufréttum ríkissjónvarpsins í gærkvöldi sem hæstvirtur fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, svaraði fyrirspurn fréttamanns sem laut að bágri stöðu fatlaðra og öryrkja og fátæks fólks nú fyrir jólin. Myndin var tekin fyrir utan Fjölskylduhjálp Íslands. Er skemmst frá því að segja að hæstv. fjármálaráðherra sagði að ekki ætti að koma óvæntur glaðningur inn í kerfið af og til. Það væri óeðlilegt kerfi sem væri með margar viðbótargreiðslur fyrir utan það sem væri bundið í lög,“ sagði Inga Sæland á Alþingi í dag.
„Stutta skýringin er þessi: Við eigum ekki að vera með neinar sértækar aukagreiðslur heldur á grunnkerfið að duga. Þetta segir hæstv. fjármálaráðherra í blússandi Covid, blússandi verðbólgu, þegar fólk verður fátækara með degi hverjum og það eru að koma jól. Þessi sami fjármálaráðherra hefur aðra tilfinningu gagnvart fyrirtækjunum í landinu. Þegar grunnkerfið dugar ekki myndi hann segja að við yrðum að bjóða akkúrat upp á þessar sértæku aukagreiðslur. Þannig hafa Covid-aðgerðir okkar verið í gegnum þennan faraldur. Fyrirtækin eru númer eitt, fólkið er ekki þar með.
Ég segi: Ef einhver velkist í vafa um það hvar stefna Sjálfstæðisflokksins liggur þegar kemur að fólkinu í landinu og þeim sem eru í bágri stöðu við að ná endum saman, þá tók hæstvirtur fjármálaráðherra af allan vafa um það í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi. Eftir það hef ég fengið þrjár upphringingar frá grátandi fólki vegna þess að hann sló það gjörsamlega út af borðinu að það ætti að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir þennan fátækasta þjóðfélagshóp nú fyrir jólin. Þetta er þyngra en tárum taki, virðulegi forseti.“