- Advertisement -

Flytjum út ríkisstyrkta drullu

Jón Gunnarsson:
Ég spyr: Hvers konar umhverfisstefna er þetta?

„Það hefur mikið átak verið gert á þessu kjörtímabili í umhverfismálum sem snýr að fjölbreyttum aðgerðum. Við höfum til að mynda verið að banna plast og ýmislegt annað hefur verið gert, reyndar umdeilt, en er samt sem áður staðreynd,“ sagði Jón Gunnarsson á Alþingi í gær.

„Mig langar að gera hér að umtalsefni stöðuna með rúlluplast. Mest af því er flutt til útlanda, til plastmiðlara í Hollandi. Úrvinnslusjóður greiðir fyrir söfnun og skil. Árið 2018 gerði EFLA verkfræðistofa úttekt fyrir Úrvinnslusjóð og kom í ljós að 70% af þessu plasti var drulla, óhreinindi og vatn. 30% var plast. Í dag er reiknað með hjá Úrvinnslusjóði að þetta séu um 58%. Það gerir allar úrvinnslutölur rangar. Samkvæmt mínum upplýsingum, virðulegur forseti, er allt þetta plast flutt til Malasíu af þessum miðlara í Hollandi,“ sagði Jón.

„Hvað verður um það er ómögulegt að segja en það er harla ólíklegt að það fari þar í nútímaendurvinnslu á plasti, eins og við reiknum með og viljum að það geri. Á sama tíma er verksmiðja starfandi í Hveragerði sem er einhver umhverfisvænasta verksmiðja á þessu sviði í heiminum og hún er verkefnalaus,“ sagði Jón næst.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Ég spyr: Hvers konar umhverfisstefna er þetta? Búið er að benda ítrekað á þessa vankanta á málinu á undanförnum mánuðum og árum en það hefur engin breyting orðið á. Er þetta blekkingaleikur? Er þetta tvískinnungur í okkur þegar kemur að umhverfismálum og þessum mikilvæga þætti? Þetta minnir óneitanlega á förgun skipa í Indlandi sem gerð var að umtalsefni í vetur og vakti mikla athygli. Ég held að við þurfum að bretta upp ermar, virðulegur forseti. Mér þótti heldur dapurt að heyra það í samtölum mínum við embættismenn umhverfisráðuneytisins að þeim er kunnugt um þetta og því enn furðulegra að ekki skuli vera brugðist við með viðeigandi ráðstöfunum.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: