„Skaðinn sem hefur orðið af völdum sjókvíaeldis hér á landi er hvorki óvæntur né ófyrirséður. Hann er afleiðing þess að Ísland flutti inn í heilu lagi mistök Noregs þrátt fyrir vitneskju okkar um að villti laxastofn Noregs hefði dregist saman um 50% undanfarin 20 ár,“ sagði Halldora Mogensen á Alþingi fyrr í dag.
Þá var verið að tillögu um bann við fiskeldi í opnum sjókvíu.
„Og bara í fyrra, á einu ári, þá dóu 58 milljónir sjóeldislaxa úr sjúkdómum í Noregi — 58 milljónir. Nú er sagan að endurtaka sig hér á landi. Talið er að 20% laxa drepist í sjókvíum við Íslandsstrendur. Þessi tala er miklu hærri ef allt framleiðsluferlið er tekið inn í myndina. Hærra hlutfall laxa drepst í sjókvíum hér en í Noregi enda er hér lakara regluverk og eftirlit. Noregur hefði átt að vera Íslandi víti til varnaðar en í staðinn tókum við opnum örmum á móti Norðmönnum sem fannst þrengt að sér með auknu eftirliti og álögum þar í landi. Á nokkrum árum hefur sprottið upp hér sjókvíaeldi víða, á Vestfjörðum og Austfjörðum, og greinin hefur vaxið á allt of miklum hraða,“ sagði Halldóra.
Í lok ræðu sinnar sagði hún:
„Eftir nokkur ár munum við horfa til baka á hömlulaust sjókvíaeldi og þurfa að útskýra af hverju við brugðumst ekki við, af hverju við vorum ekki tilbúin að stoppa þennan ábyrgðarlausa glæp mannsins gagnvart náttúrunni, gagnvart lífríki sjávar og vistkerfinu í heild. Við munum þurfa að útskýra hvernig við horfðum fram hjá öllum fréttum af sleppifiskum, myndunum af illa förnum og lúsétnum löxum, ályktunum frá sérfræðingum og háværu kalli þúsunda mótmælenda. Við munum þurfa að svara fyrir það hvers vegna fyrirtæki sem velta milljörðum, án þess að greiða af neinu viti fyrir afnot af sameiginlegri auðlind okkar allra, fengu að velta afleiðingum af þeim umhverfisslysum sem þau ollu yfir á samfélagið og yfir á framtíðarkynslóðir,“ sagði Halldóra Mogensen Pírati.