Fjölmiðlanefnd gerði ekkert með tilraun 365 til að komast undan að borga eina milljón sem fyrirtækinu var gert að greiða vegna áfengisauglýsinga í tímaritinu Glamour.
Fjölmiðlanefnd taldi víst að flóttinn undan sektinni hafi verið augljós og hafði hann því að engu. 365 færðu eignarhald tímaritsins til bresks félags, 365 Media Europe Ltd., en það félag mun vera nátengt 365. Ekkert mark var tekið á tilfæringunum og taldi fjölmiðlanefnd að tímaritið félli undir útgáfu og ábyrgð 365 miðla. Glamour félli því undir gildissvið laga um fjölmiðla og efni og útgáfa lyti ákvæðum þeirra. Þar af leiðandi giltu ákvæði um meiðyrði, höfundarétt, persónuvernd og friðhelgi einkalífs, sem og áfengislög. Þær staðreyndir að ritstjórn Glamour var staðsett á Íslandi, efni tímaritsins á íslensku og því dreift hér á landi styrktu ákvörðun fjölmiðlanefndar um ábyrgð 365 miðla á áfengisauglýsingum í Glamour.