Flokkurinn boðar meiri einkavæðingu
„En það er víðar en á fjármálamarkaði sem ástæða er til að draga úr hlut hins opinbera. Nefna má menntakerfið sem dæmi, en þar er hlutur einkaaðila lítill og þeir hafa átt erfitt uppdráttar, ekki síst í höfuðborginni þar sem áhugi stjórnenda á að auka fjölbreytni er enginn,“ segir í Staksteinum dagsins.
Halda má að höfundur hafi gleymt Hraðbrautinni. Þar fór innmúraður og innvígður rak einkamenntaskóla. Með skelli.
Jæja, aftur að Staksteinum: „Enn verra er ástandið í heilbrigðismálum, þar sem ráðherra málaflokksins hefur lagt sig fram um að þvælast fyrir einkarekstri, því miður með miklum árangri.“
Þarna mætast stálin stinn. Verður Viðreisn nógu stór til að taka við af Vinstri grænum? Ef svo verður, verður ekki Svandísi til að flækjast fyrir. Ekki má gleyma að í ráðherratíð Svandísar hefur skapast fullkomið neyðarástand í heilbrigðismálum. Eldar loga víða.
„Ríkið er umsvifamikið víðar og þar eru tækifæri til að veita einkaaðilum aukið svigrúm og þar með að efla atvinnulíf, bæta lífskjör og auka svigrúm einstaklingsins. Í þeim efnum mun fátt gerast á þessu þingi en þeim mun mikilvægara að hægt verði eftir komandi kosningar að snúa vörn í sókn í þessum efnum,“ segir Davíð í Staksteinunum.
Áhrif Davíðs verða sífellt minni. Nema í æðstu stjórn Sjálfstæðisflokksins. Þar er hlustað og þar er lesið allt sem formaðurinn fyrrverandi segir og skrifar.