„Af því sem við erum að brasa hérna ratar eitt og eitt mál til almennings og fjölmiðla. Við erum frekar þessi litli flokkur sem er sagður vera pínulítill, jafnvel þó að hlutfallslega séum við að leggja einna flest mál fram. Það er einhver þöggunartaktík þarna úti í bæ,“ sagði Inga Sæland þegar hún mælti fyrir frumvarpi sínu og Guðmundar Inga Kristinssonar um breytingar á lögum um almannatryggingar.
„Það er ekki vinsælt að vera með svona fátæktarflokk sem vill rjúfa fátæktargildru þeirra sem eru settir hér inn í samfélagsgerðina eins og annars, þriðja og fjórða flokks samfélagsþegnar. Það er nákvæmlega það sem við, ég og háttvirtur þingmaður Guðmundur Ingi Kristinsson, höfum þurft að lifa með í gegnum okkar fötlun. Þess vegna standa þau sem eru í almannatryggingakerfinu okkur mjög nærri, snerta okkur í hjartastað, því að við höfum staðið nákvæmlega í þeim sporum og vitum sannarlega hversu ömurlegt það er að ná aldrei endum saman og vera alltaf að berjast og vita aldrei hvernig í ósköpunum maður kemst af, hvað þá þegar jólin eru fram undan. Hamingjan góða, þvílíkur kvíði, þvílík vanlíðan fyrir þá sem eiga ekki fyrir salti í grautinn og eru með börnin sín og fjölskylduna sína til að hugsa um, og eru með hugann við það sem okkur hefur verið kennt að væru heilög jól, að geta ekki gert nokkurn skapaðan hlut, geta ekki veitt sér nokkurn skapaðan hlut, geta ekki keypt eina einustu jólagjöf, eiga ekki einu sinni fyrir steikinni á jólaborðið; þurfa að ganga bænarveginn milli Pontíusar og Pílatusar til að betla sér mat. Það er til ævarandi skammar að slíkir þjóðfélagshópar skuli vera til í samfélaginu. Ég er algerlega að verða orðlaus yfir því á meðan hér er verið að gaspra um milljarða skuldasöfnun í allt öðrum tilgangi en til að taka utan um þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu,“ sagði Inga.
„Þetta frumvarp er sem sagt lagt fram í þriðja sinn,“ sagði hún einnig.
„Það var farið mjög hóflega fram af hálfu eldri borgara. Þau voru að tala um að hækka þetta frítekjumark, úr 25.000 kr. á mánuði, sem er náttúrlega svo skammarlega lág upphæð að það hálfa væri nóg. Þau fóru ekki fram á að afnema það. Nei, þau fóru bara fram á að það yrði hækkað í 100.000 kr., að þetta frítekjumark yrði hækkað í 100.000 kr. Það er nákvæmlega það sem þetta frumvarp til laga, sem Flokkur fólksins er að leggja hér fram, fjallar um. Það er akkúrat það sem við erum að mæla fyrir hér í þriðja sinn. Þegar við mætum hér á nýju þingi, eftir nýjar kosningar, munum við mæla með því í fjórða sinn og í fimmta og sjötta sinn og við gefumst aldrei upp. Því að eitt er alveg víst: Flokkur fólksins setur fólkið í fyrsta sæti. Við segjum: Fólkið fyrst, svo allt hitt.“