„Flokkur fólksins hefur undanfarið verið í umfangsmiklu stefnumótunarferli og samhliða því var ráðist í breytingar á ásýnd flokksins. Merki flokksins, litir og leturgerð eru meðal þess sem munu taka breytingum og niðurstaðan er nýtt heildarútlit á öllu kynningarefni. Meginmarkmiðið er að flokkurinn haldi áfram að vekja athygli allra á baráttu sinni gegn fátækt og óréttlæti í íslensku samfélagi,“ segir í tilkynningu frá Flokki fólksins.
„Aðallitur flokksins verður gulur, sem er hlýr og bjartur. Hann líkir eftir sólinni, er vonarneisti og boð um betri tíma. Hann er nær gildum flokksins sem snúa að velferð og stendur upp úr, hvar sem hann er. Samhliða gula litnum verður svarfjólublár notaður og bleikur þegar á við, en hann er skírskotun í rætur flokksins. Merkið verður áfram friðardúfa en með endurbættu útliti og breyttum vængjum sem mynda tvö „F” sem standa fyrir nafn flokksins. Nýtt, snyrtilegt og auðlesanlegt letur endurspeglar þá hugsjón að Flokkur Fólksins vill tala til allra, ekki síst til þeirra sem eldri eru.
Öllum er heimilt að nota merkið í almennri dreifingu sem tengist starfsemi flokksins. Við biðjum um að nýjasta merki flokksins sé notað undantekningarlaust og minnum á að því má hvorki breyta né slíta í sundur.
Breytingar á útliti munu halda áfram að þróast og líta dagsins ljós á næstu vikum, meðal annars á vefsíðu flokksins.“