Eru þeir þá fyrst og fremst orðnir einhvers konar hagsmunatæki…
Sem svo oft áður hittir Styrmir Gunnarsson naglann og höfuðið í vikulegri grein sinni í Morgunblaðinu. Hér eru valdir hlutar greinarinnar.
„Sú var tíðin að stjórnmálaflokkar voru aðalvettvangur stjórnmálaumræðna í landinu. Á reglulegum fundum þeirra voru höfuðmál stjórnmálanna rædd fram og aftur. Fjölmiðlar þeirra tíma endurspegluðu svo þær umræður, hver með sínum hætti. Í dag er þetta með allt öðrum hætti. Það er lítið um fundi í flokkum.“
Þetta er hárrétt. Sú var tíðin að orð ráðafólks voru fréttir. Þá var talað um stjórnmál. En ekki nú. Hið minnsta sjaldan.
„Nú standa yfir harðar kjaradeilur, sem eru í raun miklu meira en kjaradeilur. Þær snúast öðrum þræði um þann veruleika að þróun samfélags okkar stendur nú á krossgötum. Verður þeirri þróun, að í samfélaginu skuli búa tvær þjóðir, hnekkt eða fær hún að halda áfram?“
Þetta er hárrétt. Tekst nýju og kjörkuðu fólki að stöðva þá miklu mismunun sem hér er.
„En það eru hópar í samfélaginu að berjast fyrir fleiru en því sem hér hefur verið nefnt og heyja þá baráttu líka utan flokkanna. Þar er t.d. á ferð fólk sem safnast hefur saman í Stjórnarskrárfélaginu og telur að breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins séu forsenda raunverulegra samfélagsbreytinga. Að hluta til er það rétt. Það skiptir máli að sameign þjóðarinnar á auðlindum – og þá er ekki bara átt við fiskimiðin, heldur líka orkulindir (að sjálfsögðu utan þeirra sem eru fyrir í einkaeigu vegna eignarhalds á jörðum) og hin ósnortnu víðerni landsins, sem eru í raun undirstaða ferðaþjónustunnar sem einnar höfuðatvinnugreinar landsmanna – verði bundin í stjórnarskrá.
Málefni af þessu tagi og önnur slík grundvallarmál sem varða þjóðarhag eru yfirleitt ekki til umræðu á vettvangi stjórnmálaflokkanna. Og þá vaknar sú spurning hvort enginn þeirra hafi áttað sig á því, að um leið og það gerist að umræður um slík mál færist út fyrir flokkanna kemur að því að spurt verður hvaða hlutverki þeir gegni þá í raun. Eru þeir þá fyrst og fremst orðnir einhvers konar hagsmunatæki þeirra sem eru virkir í stjórnmálastarfi á þingi og í sveitarstjórnum í stað þess að vera lifandi og frjór vettvangur þjóðfélagsumræðna?
Getur verið að í slíkri þróun megi sjá fyrstu merki dauðateygja stjórnmálaflokka eins og við þekkjum þá?“