Fliss og háð í borgarstjórn
„Mér sýnist að þörf sé á skýrum samskiptareglum og að til sé viðbragðsáætlun gegn einelti í borgarstjórn.“
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins, er hugsi eftir sinn fyrsta borgarstjórnarfund.
„Á mínum fyrsta borgarstjórnarfundi 19. júní sem stóð yfir í 9 tíma kom það mér mjög á óvart hvernig sumir höguðu sér og leyfðu sér að tala til annarra borgarfulltrúa í stjórnarandstöðu. Það mátti heyra fliss eins og verið væri að hæða og spotta okkur í stjórnarandstöðunni. Í tvígang taldi ég mig knúna til að fara í pontu og krefjast þess að fólk hagaði sér vel, sýndi kurteisi, virðingu og væri málefnalegt enda get ég ekki liðið að sitja þögul við þessar aðstæður,“ skrifar hún á Facebook.
„Ég spyr mig nú í upphafi starfs á nýjum vinnustað hvort svona framkoma og hegðun hafi kannski tíðkast í gegnum árin? Mér sýnist að þörf sé á skýrum samskiptareglum og að til sé viðbragðsáætlun gegn einelti í borgarstjórn.
Ég hef áralanga reynslu af því að vinna með samskipta- og eineltismál og hef skrifað fjölmargar greinar um einelti á vinnustað. Ég myndi gjarnan vilja heyra í öðrum borgarfulltrúum, fráfarandi og núverandi um hvort þeir telji að einelti hafi tíðkast á þessum vinnustað,“ skrifar hún einnig.