„Flest ferðaþjónustufyrirtæki hér á landi voru tæknilega gjaldþrota þegar um síðustu áramót, áður en Covid-faraldurinn hófst. Það tjáði einn helsti talsmaður ferðaþjónustunnar í mín eyru í mars,,“ skrifar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í Moggann.
„Ríkisstjórnin og þingflokkar hennar vissu þetta mætavel og hafa vitað allan tímann. Höfum við verið að moka fé í fyrirtæki sem hvort eð er voru komin á vonarvöl. Höfum við hætt öllu, með því að létta á hömlum vegna Covid til að „bjarga“ rekstri sem hvort eð er var á vonarvöl fyrir löngu?“
Inga er ósátt: „Hvernig ætlum við nú að bregðast við nýjustu aukningu í smitum? Er ekki réttast að grípa ákveðið í taumana og setja nú þegar á samkomubönn og takmarkanir eins og við gerðum í mars og apríl? Það er greinilega það eina sem dugar til að vinna bug á smiti. Reynslan í vor kenndi okkur það með afgerandi hætti.“
Inga vill herða á komu erlendra ferðamanna.
„Við getum ekki leyft okkur að fara inn í haustið með vaxandi og jafnvel háa smittíðni í samfélaginu. Það mun kosta að við getum ekki opnað framhalds- og háskóla, og jafnvel ekki heldur grunnskólana. Viljum við þurfa að taka slíkar ákvarðanir?
Það blasir við að kórónuveirufaraldrinum er hvergi lokið. Áhættan sem verið er að taka með því að hafa of rúm samgönguskilyrði er gífurleg. Ekkert má út af bera til að ekki komi upp tilfelli sem geta reynst afar dýr. Dæmið um farþegaskipið Roald Amundsen í Noregi ætti að segja okkur allt um það. Pestin er að gjósa upp á ný í Færeyjum þar sem menn töldu sig hafa útrýmt henni með því að loka landinu og hefja umfangsmikla sýnatöku og smitrakningu.
Sagt er að við eigum að læra að lifa með Covid. Ég vil geta lifað án Covid ef þess er nokkur kostur og Ísland var jú orðið Covid-frítt. Ef það kostar það að við verðum að setja á mjög strangar takmarkanir á ferðir fólks til og frá landinu þar til tekst að þróa bóluefni þá verður svo að vera. Að ætla okkur að læra að lifa með þessari pest kostar einfaldlega of mikið. Fórnarkostnaðurinn er óréttlætanlegur með öllu.“