Mennta- og menningarmálaráðuneyti gaf nýverið út skýrsluna Ungt fólk – Framhaldsskólanemar 2013. Margt jákvætt er í skýrslunni, t.d það að ungt fólk hefur minnkað sykurneyslu og borðar meira af grænmeti og ávöxtum. Þá vita foreldrar almennt betur hvar unglingurinn er á hverjum tíma. Lestur heldur þó áfram að minnka og fleiri segja að andleg líðan sé ekki nógu góð.
Ráðuneytið hefur stuðlað að gerð rannsóknanna Ungt fólk allt frá árinu 1992 en þær eru nú unnar meðal nemenda í 5. – 7. bekk, í 8. – 10. bekk og meðal nemenda í öllum framhaldsskólum landsins. Skýrslan nú inniheldur upplýsingar um menntun, menningu, íþróttaiðkun, heilsuhegðun og heilsuvísa, líðan og framtíðarsýn íslenskra ungmenna í framhaldsskólum landsins
Sé litið á þróun mála aftur til ársins 1992 má segja að hún sé almennt jákvæð. Foreldrar eru mun líklegri til þess að vita hvar og með hverjum unglingarnir eru á kvöldin heldur en árin áður, en það hefur sýnt sig að stuðningur, aðhald og eftirlit er mjög öflug forvörn.
Neysla á ávöxtum og grænmeti hefur aukist meðal ungmenna, og á sama tíma hefur neysla á sykruðum gosdrykkjum minnkað. Hlutfall framhaldsskólanema sem hafa neytt vímuefna, orðið ölvaðir og reykja heldur áfram að lækka á milli ára.
Þrátt fyrir almennt jákvæða þróun eru ákveðin atriði sem þörf er á að skoða nánar. Athygli vekur að 10-12% nemenda telur að lítill leshraði hafi áhrif á frammistöðu þeirra í námi, 15% telja að athyglisbrestur hafa áhrif og 21-22% að einbeitingaskortur hafi áhrif á frammistöðu þeirra í námi. Vert er að benda á að nemendur segjast lesa bækur og blöð í mun minni mæli en áður. Annað sem nauðsynlegt er að skoða nánar er að stúlkur og drengir virðast síður meta andlega heilsu sína góða árið 2013 miðað við árin á undan.
Sjá frétt og skýrslu á vef ráðuneytis.