„…skattaskjólsskýrslan sem Bjarni stakk ofan í skúffu og fjöldamörg önnur mál…“
„Það eru ekki bara þau orð sem féllu á barnum hérna við hliðina sem draga þingið niður í svaðið. Það er líka landsréttarmálið, skattaskjólsskýrslan sem Bjarni stakk ofan í skúffu og fjöldamörg önnur mál sem velkjast um án þess að nokkur sæti ábyrgð. Það er einkenni þessara mála að þau eru þvæld fram og til baka, sett í nefnd og beðið eftir að þau gleymist. Málin gleymast hins vegar aldrei alveg. Alþingi sem stofnun og tákn lýðræðis verður fyrir orðstírsskaða því að þessi mál eru aldrei kláruð á fullnægjandi máta,“ skrifar Björn Leví Pírati í Mogga dagsins.
„Skoðanir nokkurra þingmanna opinberuðust á Klaustri. Í staðinn fyrir að viðurkenna, afsaka og axla ábyrgð þá var reynt að þvæla málið. Engin afsökunarbeiðni, bara langur listi af blórabögglum, stólahljóðum og útúrsnúningum. Það er ætlast til þess að þingmenn starfi með fólki sem sýndi, samkvæmt skilgreiningum sérfræðinga, andlegt ofbeldi gagnvart samstarfsfólki sínu. Það er ætlast til samstarfs án þess að því fylgi snefill af afsökun, eftirsjá eða ábyrgð,“ skrifar hann.