Stjórnmál Jóhanna Sigurðardóttir segir, í nýútkominni bók sinni, að svo reiður hafi Davíð Oddsson orðið þegar lögum um Seðlabankann var breytt að hún varð að halda símtólinu fjarri sér þegar hann öskraði á hana af krafti. Davíð neitar því.
En fleiri hafa orðið reiðir vegna þessa. Undirritaður átti útvarpsviðtal við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins og þáverandi fjármálaráðherra, um þetta sama mál. Viðtalið var sent út í beinni útsendingu um miðjan ágúst 2014.
Bjarni sagði að með breytingu á lögum um Seðlabankann, frá febrúar 2009, hafi ríkisstjórn Jóhönnu skaðað sjálfstæði Seðlabankans.
En var ekki eðlilegt að þáverandi ríkisstjórn, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, vildi gera breytingar á Seðlabanka Íslands?
„Við erum að tala um grundvallaratriði, að virða sjálfstæði Seðlabankans.“
Árásin á Seðlabankann
Bjarni sagði að sama fólk og sat í ríkisstjórn fyrir hrun, hafi síðan ráðist að Seðlabankanum. „Getur verið að fólk hafi verið að skjóta sér undan ábyrgð og athygli á eigin verkum? Í hvaða stöðu eru þeir sem fóru fyrir því máli, Samfylkingin, Jóhanna Sigurðardóttir og aðrir, til að varpa frá sér allri ábyrgð yfir á Seðlabankann og grípa inn í skipunartíma bankastjóranna og gera lagabreytingar? Þetta fólk var ekki, í mínum huga, í sterkri stöðu til að stíga þessi skref. Þetta er stærsta og alvarlegasta inngrip í sjálfstæði Seðlabankans sem við höfum nokkru sinni séð.“
Þá sagði Bjarni að Samfylkingin hafi setið í ríkisstjórn frá árinu 2007. „…og taldi sér stætt á að sitja áfram í ríkisstjórn þrátt fyrir að ekki væri meirihluti á þingi til þess.“
Hann sagði aldrei áður hafa gerst að farið sé í breytingar á stjórnarskrá eða á lögum um Seðlabankann án þess að það hafi eðlilegan aðdraganda og um það hafi verið samráð. Ríkisstjórn Jóhönnu hafi ekki gert það og „…hún lagði til breytingar á stjórnarskránni og á lögum um Seðlabankann án þess að tala við kóng eða prest. Hún virti ekki stjórnarandstöðuna viðlits. Það var árás á sjálfstæði Seðlabankans.“
Hefur áhrif á traust og samskipti
Ljóst var að breytingarnar á Seðlabankanum og Landsdómsmálið gegn Geir Haarde sat enn í Bjarna.
Næsta spurning var svona: Má skilja þig þannig að breytingarnar á Seðlabankanum og málið gegn Geir H. Haarde hafi áhrif enn og með hverjum þið til að mynda viljið vinna?
„Þetta hefur áhrif á traust. Þetta hefur áhrif á samskipti. Þetta dregur fram mun á afstöðu til ýmissa mála, ýmissa prinsippmála. Hversu langt erum menn tilbúnir að ganga, hvar liggja mörkin um að ná fram stjórnmálalegum markmiðum og því sem þér finnst í hjarta þínu vera algjört prinsippmál sem þú getur ekki tekið þátt í. Hversu auðvelt hefði verið fyrir okkur í Sjálfstæðisflokknum að ná fram einhverjum skammtíma pólitískum markmiðum með því að ákæra pólitíska andstæðinga. Þetta var prinsippmál sem við tókum ekki þátt í.“
Meiri freistingar
Einsog sést er verið að fjalla um tvo fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins, Geir H. Haarde og Davíð Oddsson. Hefur það ekki mikil áhrif að í báðum málunum voru fyrrverandi formenn Sjálfstæðisflokksins?
„Jú, þess vegna verður málið heitara opg freistingar stærri fyrir andstæðinga okkar. Hvað gera menn þegar þeri standa frammi fyrir freistingum?“
Rétt er að undirstrika að viðtalið var í beinni útsendingu 18. ágúst 2014. Í því kemur skýrt fram að Sjálfstæðisflokkurinn er sár vegna þessara mála.
Nú er unnið að myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks. Formenn VG og Framsóknarflokks, Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson sögðu bæði já í atkvæðagreiðslu á Alþingi um ákæru á hendur Geir H. Haarde. Þau vildu einnig ákæra Árna M. Mathiesen, Björgvin G. Sigurðsson og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
-sme