Fréttir

Fleiri dáið í valdatíð Willums

By Ritstjórn

March 09, 2022

Gunnar Smári skrifar:

Frá því að fyrsti sjúklingurinn með cóvid dó á Íslandi og þar til Svandís Svavarsdóttir lét af störfum heilbrigðisráðherra 28. nóvember í fyrra létust 35 manns með cóvid á landinu. Frá því að Willum Þór Þórsson tók við hafa 41 sjúklingur látist með cóvid.

Þetta er skrítið í ljósi frétta og umræðu, nú er varla rætt um cóvid sem háska í fréttum. Langt síðan að ráðherra og sóttvarnaryfirvöld hafa verið í Kastljósi. Nú eru engar sóttvarnir hafðar uppi.

Í tíð Svandísar dó einn Íslendingur með cóvid á tæplega 18 daga fresti að meðaltali. Í tíð Willum hefur einn dáið á rétt rúmlega tveggja daga fresti. Þetta er mikil hröðun, eins og sagt er.

Það sem gerðist er að stjórnvöld ákváðu að sleppa veirunni lausri vitandi að hún myndi þá bíta viðkvæmustu hópana. Svo virðist sem fjölmiðlar hafi ekki áhuga á að fjalla um afleiðingar þessarar stefnubreytingar. Sem er skrítið, eins og þeir eyddu mikilli orku í að fjalla um cóvid fyrir breytinguna.

Ekki kann ég að segja hvor stefnan er rétt. En mér finnst að við eigum að halda uppi opinni og virkri lýðræðislegri umræðu í samfélaginu svo almenningur skilji stefnu stjórnvalda og geti tekið afstöðu til hennar. Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki þar, þegar þeir missa skyndilega áhugann á að fjalla um afleiðingar af stefnu stjórnvalda er erfitt að halda uppi vitrænni umræðu.