„Það er undarlegt að þegar litið er til nágrannalandanna þá eru að meðaltali fimm prósent þeirra sem eru 65 ára og eldri á stofnunum, en hér á landi er þetta hlutfall níu prósent.“
Þetta sagði Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir og þá formaður Landssambands eldri borgara í frétt í Blaðinu í júlí 2006.
Staðan hefur lítið breyst á áratug. Allt að þrefalt fleiri, á aldrinum 65 til 74 ára, eru á stofnunum hér en á flestum hinna Norðurlandanna.
Eins er mikill munur þegar litið er til fólks 75 til 79 ára, en 8,3 prósent eru á stofnunum hér, 5,7 prósent í Færeyjum og fæst eru á stofnunum í Danmörku, eða 2,8 prósent fólks á aldrinum 75 til 79 ára.
Þegar litið er til fólks sem er áttatíu ára eða eldra eru flest á stofnunum í Færeyjum, eða 24,7 prósent, 20,8 prósent í Noregi og svo á Íslandi, eða 18,1 prósent.
Þegar allir aldursflokkar eru skoðaðir saman eru 9,5 prósent fólks, 65 ára eldra, á stofnunum í Færeyjum, átta prósent á Íslandi, 7,3 prósent í Noregi, 5,1 prósent í Finnlandi, 4,7 prósent í Svíþjóð og 3,9 prósent í Danmörku.