Meðan innanmein Sjálfstæðisflokksins vex dag frá degi reyna þrír þingmenn að gera vart við sig með skrifum í Moggann í dag. Virðingarverðar tilraunir til að beina augum fólks annað en að átökunum.
Haraldur Benediktsson vill sölu ríkisjarða: „Það er nauðsynlegt að hafist verði handa við skipulega sölu bújarða í eigu ríkisins.“
Jón Gunnarsson er á þekktum slóðum. Hann vill grafa og sprengja: „Nú er tíminn til að hugsa stórt í arðbærum fjárfestingum og hefjast þegar handa. Við eigum að sækja fram: Sókn er besta vörnin.“
Óli Björn Kárason veifar löngu úreltu trixi. Sem sagt, þegar bankarnir verða seldir fái allir sent brotabrot úr bönkunum. Þannig að allir verði kapítalistar, eins og Óli Björn segir. En er ekki ágreiningur milli stjórnarflokkana þegar kemur að bankasölu:
„Mismunandi áherslur stjórnarflokkanna og ólík viðhorf til hlutverks ríkisins á fjármálamarkaði kemur ekki í veg fyrir að tekin sé ákvörðun um valddreifingu – að afhenda landsmönnum eignarhlut í bönkunum tveimur sem eru í eigu ríkisins.“