59,4 prósenta kjaragliðnun öryrkja frá árinu 1998.
„Ljóst er að hópur aldraðra og öryrkja búa við fátækt. Tæplega fjórðungur öryrkja býr við skort á efnislegum gæðum samkvæmt nýjustu rannsóknum Hagstofu Íslands og eru öryrkjar sá hópur sem verst stendur þegar þátttakendur eru greindir eftir atvinnustöðu. Frá árinu 1998 hefur kjaragliðnun öryrkja numið 59,4% samkvæmt tölum sem unnar hafa verið fyrir málefnahóp Öryrkjabandalags Íslands um kjaramál. Staðan er þannig nú að þúsundir lífeyrisþega ná ekki viðmiðum um lágmarkslífeyri og fá þar af leiðandi sérstaka uppbót til framfærslu, þ.e. þeir sem eiga rétt á henni.“
Þetta sagði Logi Einarsson þegar hann mælti fyrir frumvarpi um breytingar á almannatryggingum.
„Það eru fordæmi fyrir því að þessum hópum séu ákvarðaðar kjarabætur í tengslum við samninga. Það var t.d. gert árið 2011 þegar Alþingi þess tíma hækkaði greiðslur til hópanna í samræmi við kjarasamningana þá. Ef einhver vill vísa í það að nú sé vinna í gangi við að ná saman við þá hópa bendi ég á að reynslan sýnir að það mun ganga allt of hægt. Hæstvirtur forsætisráðherra landsins sagði í þingræðu fyrir einu og hálfu ári síðan að þetta væru einmitt hópar sem ættu ekki þurfa að bíða og mættu ekki bíða. Hér er því verið að koma til móts við leiðtoga ríkisstjórnarinnar,“ sagði Logi.