Fjórðungur fanga fer aftur í fangelsi
Þörf er á nýjum upplýsingum. Metið verði hvort rétt sé að Fangelsismálastofnun ráði hverjir taki út refsingu í samfélagsþjónustu og hverjir ekki.
Í raun eru ekki til góðar upplýsingar um hversu margir fangar gerast aftur brotlegir og enda aftur bak við lás og slá. Bestu fyrirliggjandi upplýsingar segja að rétt um fjórðungur fanga komi aftur í fangelsi.
Nokkrir alþingsimenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um betrun fanga. Þeir verða að styðjast við skýrslu Fangelsismálastofnunar frá árinu 2010, sem var unnin á þann veg að dómþolum sem luku afplánun, hófu samfélagsþjónustu eða sættu eftirliti samkvæmt skilorðsbundnum dómi eða rafrænu eftirliti á árinu 2005 var fylgt eftir í tvö ár og athugað hvort þeir væru að þeim tíma liðnum komnir með nýjan dóm til fullnustu, óskilorðsbundinn eða skilorðsbundinn með sérskilyrðum.
„Mikilvægt er að meta endurkomutíðni upp á nýtt með gögnum sem ná yfir lengra tímabil og greina ólíka endurkomutíðni fanga á grundvelli ólíkra brota og mismunandi afplánunar,“ segja þingmennirnir, en fyrir hópnum fer varaformaður Viðreisnar, Þorsteinn Víglundsson.
Í framangreindri skýrslu kom fram að endurkomutíðni fanga sem afplána með samfélagsþjónustu eða sambærilegum úrræðum væri lægri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Er því ástæða til að kanna kosti aukins vægis samfélagsþjónustu og meta hvort rétt sé að dómstólar taki ákvörðun um slíka afplánun í stað Fangelsismálastofnunar.
Í greinagerðinni má lesa að rannsóknir bendi til að athyglisbrestur, ofvirkni og þunglyndi séu tíðari meðal fanga en annarra hópa samfélagsins.
Þingsályktunin er svona: „Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og heilbrigðisráðherra að setja á fót starfshóp um mótun heildstæðrar betrunarstefnu í fangelsismálakerfinu, þ.m.t. að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og fjármagn til þess að tryggja öllum föngum einstaklingsbundna meðferðar- og vistunaráætlun, bættan aðgang að menntun og heilbrigðisþjónustu og aukinn stuðning að afplánun lokinni. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 1. desember 2018. Dómsmálaráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.“
Auk Þorsteins Víglundssonar eru eftirtaldir þingmenn með honum í málinu: Hanna Katrín Friðriksson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Steindór Valdimarsson, Ólafur Ísleifsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Álfheiður Eymarsdóttir.