- Advertisement -

Fjórða þorskastríð: Kvótakerfið er plága í Norðurþingi

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.
Ef íbúar Norðurþing vildu endurreisa sjávarútveginn í sveitarfélaginu til fyrri vegs þyrftu þeir að leigja kvóta fyrir um 1,5 milljarð króna árlega.

Norðurþing, með hafnir á Húsavík og Raufarhöfn, er eitt þeirra sveitarfélaga sem hafa farið illa út úr kvótakerfinu. Sé miðað við verðmæti landaðs afla þá hefur Norðurþing misst tvo þriðju hluta aflans frá árunum fyrir hrun. Það er gríðarlegt högg, ígildi þess að sveitarfélagið hafi misst 2,6 milljarða í útflutningstekjum. Til að gefa hugmynd um hversu þungt höggið er, þá jafngildir það um 860 þús. kr. á hvern íbúa. Ef landsframleiðsla Norðurþings myndi dragast svo mikið saman myndi það mælast sem 11% samdráttur, viðlíka og efnahagshrunið 2008 var fyrir Íslendinga sem heild. En íslenskt efnahagslíf reis fljótt aftur eftir hrunið. Fiskurinn í Norðurþingi er hins vegar horfinn og kemur ekki aftur í bráð. Og svo er rétt að minna á að samdráttur í útflutningstekjum hefur keðjuáhrif, kreppan vegna minni afla í Norðurþingi er því líklega nærri 20% samdrætti en 11%. Fyrir Húsvíkinga, fólkið á Raufarhöfn eða aðra íbúa Norðurþing, er kvótakerfið ekki besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi eins og senditíkur útgerðaraðalsins segja á Alþingi og víðar. Þvert á móti kvótakerfið eitt það allra versta sem hent hefur íbúa Norðurþings, algjör plága.

Ef 371 þúsund þorskígildum yrði úthlutað út frá sveitarfélögum, miðað við landaðan afla fyrir kvótakerfið, kæmu rúmlega 11 þúsund tonn til Norðurþings. Það er álíka og eitt þessara fyrirtækja hafa í dag: Gunnvör, Nesfiskur eða Bergur-Huginn. Eða 2/3 af kvóta Vísis í Grindavík, en stór hluti kvótans sem áður var á Húsavík var fluttur suður til Grindavíkur eftir kaup Vísismanna.

Ef íbúar Norðurþing vildu endurreisa sjávarútveginn í sveitarfélaginu til fyrri vegs þyrftu þeir að leigja kvóta fyrir um 1,5 milljarð króna árlega. Það jafngildir um 485 þús. kr. á hvert mannsbarn. Ef Húsvíkingar og aðrir íbúar Norðurþings vildu kaupa það aftur sem þeir hafa misst, réttinn til að sækja sjóinn í sama mæli og þeir gerðu áður, þyrftu þeir að kaupa varanlegan kvóta fyrir hátt í 22 milljarða króna. Það gerir um 28,5 m.kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í bænum. Áfallið sem fólkið í sveitarfélaginu hefur orðið fyrir er af þessari stærðargráðu, á stærð við allt sem fólkið á (ætli 28,5 m.kr. sé ekki nærri því að vera eigið fé meðalfjölskyldu í sveitarfélaginu).

Ég minni á fundinn Til róttækrar skoðunar: Gerum Ísland heilt á ný – Kvótann heim! í hádeginu laugardaginn 11. janúar í Þjóðmenningarhúsinu, gamla Landsbókasafninu, við Hverfisgötu.




Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: