Fjölskyldan er blind af græðgi
Það er sorglegt hvernig lífeyrissjóðir okkar tengjast glæpastarfseminni á Indlandi.
Katrín Baldursdóttir skrifar:
Enn bætist við níðingsskap og lögbrot Samherjaforystunnar. Eimskip stendur fyrir þvílíkri mengun í hinu fátæka Indlandi að ESB segir að íslensk stjórnvöld verði að taka málið föstum tökum. „Stærsti eigandi Eimskips er Samherji Holding, annar helmingur Samherjasamstæðunnar sem heldur utan um erlenda starfsemi hennar og eignarhlutinn í Eimskip, með 27,06 prósent hlut. Stjórnarformaður Eimskips er Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra Samherja. Baldvin á nú 20,5 prósent hlut í Samherja hf., hinu félaginu sem myndar Samherjasamstæðuna. Samherji er með tvö af fimm stjórnarsætum í Eimskip auk þess sem samsteypan styður einn óháðan stjórnarmann óskorað til stjórnarsetu. Í janúar 2019 var svo ráðinn nýr forstjóri Eimskips, Vilhelm Már Þorsteinsson. Hann er frændi stjórnarformannsins og tveggja helstu eigenda Samherja.“ Málið var tekið fyrir í Kveikþætti gærkvöldsins.
Græðgi Samherjafjölskyldunnar ríður ekki við einteyming og siðblindan sömuleiðis. Fjölskyldan er svo blind af græðgi að hún veður yfir sjó og lönd fátækra þjóða. Ránsfengurinn er svo gígantískur að manni fallast hendur. Ímyndið ykkur hvað þessi fjölskylda hefur hirt af íslenskri þjóð. Stolið auðlindum okkar miskunnarlaust með leyfi stjórnvalda.
En það er sorglegt hvernig lífeyrissjóðir okkar tengjast glæpastarfseminni á Indlandi. „Íslenskir lífeyrissjóðir eiga meira en helming í Eimskip. Stærstu sjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Gildi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Birta eiga samtals 43,2 prósent í skipafélaginu. Allir sjóðirnir hafa samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi í starfsemi sinni.“