Fjölmiðlar og hefnigjarnir stjórnmálamenn
Vandinn er hefnigjarnir stjórnmálamenn sem hika hvergi. Eins og sést svo vel á Ríkisútvarpinu núna.
Stjórnmálamenn hafa ákveðið að þrengja að Ríkisútvarpinu. Búið er að segja upp þremur fréttamönnum og boðað er að þeir kunni að verða fleiri. Fréttastofan hefur veikst og mun jafnvel veikjast enn frekar.
Af hverju ætli það sé? Sögðu fréttamennirnir eitthvað eða gerðu sem fjárveitingavaldinu á Alþingi sættist ekki við? Var það Kveikur? Var það Namibía? Hvað varð til þess að tekin var pólitísk ákvörðun um að veikja fréttastofuna? Enn ríkir þögnin.
Nú verða nánast allir fjölmiðlar háðir duttlungum stjórnmálamanna. Líka þeirra hefnigjörnu. Flestir stjórnmálamenn tala varlega þegar þeir gefa vald sitt í skyn. Minna á mátt sinn og megin. Ekkert er án undantekninga.
Athygli vakti þegar Vigdís Hauksdóttir, þá formaður fjárlaganefndar Alþingis og formaður hagræðingahópsins, minnti bara á það opinberlega hver hún var og hversu miklu hún réði þegar henni mislíkaði við fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Þegar Fréttablaðinu gekk hvað best var þáverandi forsætisráðherra verulega í nöp við blaðið. Hann hafði engin ráð til að stöðva útgáfu þess. Reyndi samt með illa unnu fjölmiðlafrumvarpi. Sem varð hans banabiti í stjórnmálum. Það er önnur saga.
Forsætisráðherrann gerðist sekur um, í óvild sinni og ólund, að boða Fréttablaðið ekki til blaðamannafunda. Hann vildi hefna þess að tilurð Fréttablaðsins veikti Morgunblaðið og gekk ekki erinda hans og hans hagsmuna.
Þessi er hættan. Því fleiri fjölmiðlar sem verða háðir ríkisvaldinu því verður hættan meiri. Um leið verða tækifæri hefnigjarnra stjórnmálamanna fleiri. Sem þeir munu nýta sér. Opinberlega eða í felum.
Miðjan mun aldrei þiggja ríkisstyrk. Ekki verður einu sinni látið á það reyna. Reyndin er sú að Miðjan hefur aldrei náð að afla tekna til að borga útgáfuna og laun. Ekki er útilokað að nýhafinn desember verði síðasti mánuðurinn í sögu Miðjunnar.
Rekstur fjölmiðla er erfiður. Vel er hægt að skilja að fjölmiðlar vilji opinbera styrki. Það tíðkast í öðrum löndum. Í sjálfu sér á það ekki að vera vandamál. Vandinn er hefnigjarnir stjórnmálamenn sem hika hvergi. Eins og sést svo vel á Ríkisútvarpinu núna.
-sme