- Advertisement -

Fjölmenningin er komin til að vera

Samfélag Verið er að skrásetja  lífssögu Ibrahems Aldanony Mousa Faraj sem fæddur er í Líbíu árið 1974. Ibrahem kom til Íslands sem hælisleitandi í júní 2002, fékk dvalarleyfi sitt framlengt í 6 mánuði í senn til ársins 2009 en eftir það árlega uns hann öðlaðist íslenskt ríkisfang í desember 2012. Verkefnið er komið í kynningu og hlutafjármögnun á Karolina Fund sjá: https://www.karolinafund.com/project/view/430

Á þeim langa tíma sem mál Ibrahems var að velkjast í kerfinu öðlaðist hann mikla innsýn í málefni hælisleitenda á Íslandi. Þá hefur hann frá upphafi dvalar tekið þátt í þróun íslam á Íslandi, en hann er einn af stofnendum Menningarseturs múslima á Íslandi sem stofnað var árið 2009 og situr í stjórn þess. Einnig varpar saga Ibrahems ljósi á aðstæður hælisleitenda sem þvælast um Evrópu í leit að öruggu skjóli og setur sögur þeirra í samhengi við stjórnmál og atburði í heimssögunni. Ástæða þess að Ibrahem flúði frá Líbíu var sú að hann hafði lent á svörtum lista yfirvalda vegna andófs við Gaddafistjórnina, en alla ævi bjó hann við ógnarstjórn þessa brjálaða einræðisherra og fylgismanna hans. Á Íslandi endaði hann vegna þess að það var eina landið í Evrópu sem hann treysti fyrir lífi sínu.

Undanfarin misseri hafa þessi tvö málefni, aðstæður hælisleitenda og íslam á Íslandi, verið mjög til umræðu á Íslandi. Því miður vantar talsvert upp á að sú umræða sé málefnaleg og upplýst. Hvernig umræðunni vindur fram mun ráða miklu um hverskonar samfélag þróast á Íslandi og ráða úrslitum um hvort okkur lánist að læra af byrjendamistökum fjölmenningarinnar í löndunum í kringum okkur, nýta kosti fjölbreytileikans og takast af einurð og yfirvegun á við áskoranirnar sem sambúð ólíkra menningarheima fylgja. Fjölmenningin er komin til að vera, hvernig til tekst með fjölmenningarsamfélagið veltur á viðbrögðum samfélagsins við þeirri staðreynd. Með því að varpa ljósi á þróun beggja málaflokka, hælisleiteindamál og íslam á Íslandi, í gegnum lífssögu manns sem hefur persónulega reynslu og innsýn má byggja undir grunn að málefnalegri og einlægri samræðu, samfélaginu á Íslandi til heilla, og spyrna gegn fordómum sem virðast því miður fara vaxandi.

Um miðjan maí kynnti Rauði kross Íslands skýrsluna Hvar þrengir að? þar sem fjallað er um þá hópa sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi. Þar kemur glöggt í ljós að fordómar í garð útlendinga, sérstaklega þeirra sem eiga uppruna utan hins hvíta, kristna heims, eru vaxandi vandamál. Fordómar eru meinsemd sem grefur ekki aðeins undan þeim sem fyrir verða heldur samfélaginuí heild. Á kynningarfundi Rauða kross hreyfingarinnar vegna útkomu skýrslunnar flutti Ibrahem Faraj erindi sem var viðbragð við þessum fréttum. Hann sagði m.a.

Gleymum því aldrei að „innflytjendur“ eða „útlendingar“ eru einstaklingar og saga hvers þeirra er einstök. Og sögur okkar þurfa að heyrast – það myndi leiða af sér meiri skilning, samhug og umburðarlynd, og að fordómar nærast á þekkingarleysi – þess vegna þurfum við að fræða og deila sögum okkar.

 


Auglýsing