Hér er frétt úr Mannlífi frá því snemma árs 2008.
Mikilvægt er að gera gangskör að því að auka upplýsingagjöf til útlendinga sem búsettir eru hér á landi, um skyldur þeirra og réttindi í íslensku samfélagi. Með því má hugsanlega fækka afbrotum þeirra hér á landi og öðrum þeim tilvikum sem útlendingar tengjast og kalla á afskipti lögreglu. Þetta er mat Ólafs Helga Kjartanssonar, sýslumanns á Selfossi, sem segir mikla fjölgun útlendinga hafa gjörbreytt störfum lögreglunnar og stjórnvalda almennt.
„Hjá lögreglunni í Árnessýslu komu á síðasta ári til dæmis upp alls 140 ölvunarakstursmál og samkvæmt bráðabirgðaathugun koma útlendingar við sögu í fjórða hverju tilviki þar. Þá komu alls ellefu nauðgunarmál inn á okkar borð í fyrra. Í tveimur þeirra voru útlendingar meintir gerendur; tveir menn í einu málinu og fjórir í öðru,“ segir Ólafur Helgi. Hann segir þá sem málunum tengjast gjarnan úrskurðaða í farbann. Reynslan sýni að slíkt dugi skammt, enda sé ekki vegabréfsskylda á Schengen-svæðinu. Í desember hafi til dæmis verið gripið til þess ráðs að krefjast einnar milljónar króna til tryggingar svo erlendur maður, sem sætti farbanni, yrði örugglega hér á landi þegar kæmi að rannsókn málsins sem hann tengist.
Gagnrýnt hefur verið að opinberar eftirlitsstofnanir ráði illa við þau fjölþættu og oft á tíðum flóknu úrlausnarefni sem upp hafa komið vegna mikillar og næsta skyndilegrar fjölgunar útlendinga á íslenskum vinnumarkaði. Sérstaklega var gagnrýni þessi áberandi við upphaf virkjunar- og álversframkvæmda á Austurlandi.
„Ég get svarað þessu almennt á þann veg að styrkja þurfi lögregluna og eftirlitsstofnanir til muna. Efnahagsbrot hvers konar, til dæmis, eru mjög flókin og hafa oft tengingar út fyrir landsteinana. Við þurfum að tryggja vandaða og skjóta rannsókn þeirra. Við þurfum einnig að tryggja að niðurstöður úr lífsýnarannsóknum berist okkur fyrr og því tel ég nauðsynlegt að DNA-greiningar fyrir íslensku lögregluna flytjist hingað heim frá Noregi,“ segir Ólafur Helgi sem telur þau viðfangsefni sem stjórnvöld hér á landi glíma við vegna mikillar fjölgunar útlendinga mjög sambærileg og í nálægum löndum.
„Á ferðalagi úti í Bretlandi á dögunum rak ég augun í frétt í dagblaði þar sem kom fram að á næstu fimm árum hygðust sveitarfélögin gera gangskör að því að efla og bæta upplýsingagjöf til fólks erlendis frá og verja til þess 50 milljónum punda á næstu fimm árum. Í Bretlandi starfa í dag um 315 þúsund Pólverjar, enda þótt Bretar byggjust aðeins við um 6.000 Pólverjum. Og mér virðist sem Bretar standi að mörgu leyti frammi fyrir sömu vandamálum og gerist hér: Til dæmis sækja Pólverjar í Bretlandi í einhverjum mæli í árnar og renna þar fyrir fisk án þess að hafa tilskilin leyfi og á nákvæmlega þessu sama hefur borið hér á landi.“