Fjölbreytt sýndarmennska þingmanna
Á sama tíma krefjast þessir sömu þingmenn að lögreglan hundelti fullráða fólk sem stundar kynlífsviðskipti og stingi því í steininn.
„Fjölbreytileikinn í sýndarmennsku þingmanna eykst jafnt og þétt þegar kosningar nálgast. Nú hafa 19 þingmenn, og þið megið geta í hvaða flokkum þeir eru, lagt fram þingsályktunartillögu um að ekki bara konur heldur einstaklingar frá öðrum löndum fái gjaldfrjálsa þjónustu til þungunarrofs nú þegar þessir sömu þingmenn eru að sligast af áhyggjum yfir aðstöðuleysi og mönnunarvanda í heilbrigðisþjónustunni,“ skrifar Brynjar Níelsson.
„Þarna kemur skýrlega fram viðhorf þessara þingmannanna til skattgreiðenda. Þetta er ekki fólk sem stritar í sveita síns andlits heldur tekjustofn á hlaðborði stjórnmálamanna. Nema þeir haldi að eitthvert evrópskt sjúkratryggingakort sem svífi um jörðina greiði fyrir þjónustuna en ekki skattgreiðendur,“ segir þingmaðurinn.
„Mér skilst að þessi gjafmildi á fé annarra sé tilkomin til að tryggja mannréttindi fólks sem felast í því að ráða yfir eigin líkama, jafnvel þótt það þurfi að eyða lífi annarra til að tryggja þessi mannréttindi. Á sama tíma krefjast þessir sömu þingmenn að lögreglan hundelti fullráða fólk sem stundar kynlífsviðskipti og stingi því í steininn. Þessi mikilvæga mannréttindaregla að ráða yfir eigin líkama gildir greinilega ekki um alla. Það er einhver lapsus í þessari röksemdafærslu, sem eru ekki nýmæli í íslenskri pólitík.“